„Við erum nálægt samkomulagi“

Gunnar Björnsson (til vinstri) er formaður nefndar sem er að …
Gunnar Björnsson (til vinstri) er formaður nefndar sem er að skoða lífeyriskerfi landsmanna. Til hægri er Árni Stefán Jónsson, formaður SFR og formaður stjórnar LSR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum mjög nærri því að ná saman,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Hann vonast eftir að á næstu mánuðum takist samkomulag um nýtt lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn. Samkomulagið byggir m.a. á því að allir landsmenn greiði sama iðgjald og lífeyrisaldur verði samræmdur.

Í fréttaskýringu á mbl.is í gær kom fram að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur verið rekinn með yfir 10% halla samfleytt í fimm ár. Samkvæmt lögum ber stjórn sjóðsins að grípa til aðgerða til að laga þessa stöðu. Fjármálaeftirlitið hefur einnig gert kröfu til sjóðsins að jafna mun á eignum og skuldbindingum.

Reiknar með að iðgjaldið verði hækkað

„Samkvæmt tölum höfum við frest til 1. október til að taka ákvörðun. Eins og staðan er núna verður iðgjaldið að hækka nema eitthvað nýtt komi til,“ sagði Árni Stefán.

Árni Stefán sagði að fulltrúar launþega í stjórn LSR hefðu lagt til hækkun iðgjalds, bæði í fyrra og hittifyrra. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins hefðu alltaf hafnað þeim. Hann sagði að tillögurnar hefðu gengið út á að ná stöðu sjóðsins þannig niður að munur á eignum og skuldbindingum yrði 5%, en hann var 12,5% um síðustu áramót. Síðast hefði verið lögð fram tillaga um að iðgjaldið yrði hækkað minna með það að markmiði að ná hallanum niður fyrir 10%, en því hefði einnig hafnað.

Árni Stefán sagði að búið væri að gera Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra grein fyrir stöðunni.

Vonast eftir samkomulagi um eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn

Árni Stefán á sæti í nefnd sem skipuð var árið 2009 og er að skoða grundvöll fyrir samræmdu lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn. „Það starf hefur gengið alveg þokkalega. Við erum mjög nærri því að ná saman. Samtímis hafa menn verið að skoða stöðu opinberra starfsmanna með tilliti til þess að til verði sameiginlegt lífeyrissjóðskerfi. Sú vinna er í gangi. Það þarf einhverja mánuði til viðbótar til að fá niðurstöðu um hvort þetta tekst eða tekst ekki.“

Árni Stefán sagði að það hefði breytt miklu þegar Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins náðu saman um bókun í síðustu kjarasamningum um að samtökin væru tilbúin að skoða að hækka iðgjaldið upp í 15,5%, líkt og opinberir starfsmenn eru með í dag. Félagsmenn og vinnuveitendur greiða í dag 12% iðgjald í almennu lífeyrissjóðina.

„Þetta breytti öllu því þar með skapaðist grundvöllur fyrir því að þeir færu upp og við héldum í okkar stöðu,“ sagði Árni Stefán.

Þegar þú segir að þið séuð að nálgast samkomulag þá áttu væntanlega við að samkomulagið sé á þeim grunni að iðgjaldi verði 15,5%?

„Já, það er á þeim grunni.“

Eru þið tilbúnir til að fallast á eitt sameiginlegt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn?

„Já, við erum til í að fallast á eitt lífeyriskerfi með ákveðnum fyrirvörum og skilyrðum um að menn skoði heildstætt kjör opinberra starfsmanna. Við höfum þurft að borga fyrir sérstöðu okkar í lífeyrismálum með lægri launum. Það þarf því að skoða launaþáttinn samtímis. Sú vinna er í gangi í annarri nefnd. Ef það smellur saman gæti þetta orðið að veruleika.“

Það hefur líka verið nefnt að nauðsynlegt sé að skoða breytingar á lífeyrisaldri?

„Já, það er hluti af þessari breytingu að búa til eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn og það verður að skoða þetta samhliða. Opinberir starfsmenn fara á lífeyri 65 ára, en félagsmenn í ASÍ 67 ára. Við þurfum að finna einhverja sameiginlega lausn á því,“ sagði Árni Stefán og ítrekaði að það væri ekki komið samkomulag um heildarpakkann. Samkomulag byggðist á því að menn yrðu sammála um alla þætti málsins og það væri ekki í höfn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert