Vilja hækka lífeyrisiðgjald í LSR

LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins og hann greiddi 29 milljarða …
LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins og hann greiddi 29 milljarða í lífeyri í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur frest til 1. október til að grípa til aðgerða til að jafna mun á eignum og skuldbindingum sjóðsins. Eina úrræðið sem sjóðurinn hefur er að hækka iðgjaldið. Fulltrúar opinberra starfsmanna hafa lagt til að iðgjaldið verði hækkað strax um 1%, það myndi kosta ríkissjóð rúmlega 1,2 milljarða á ári. Hækka þarf iðgjaldið mun meira ef ná á fullum jöfnuði milli eigna og skuldbindinga.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er rekinn í þremur deildum, A-deild, B-deild og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga (LH). B-deildin og LH eru lokaðir sjóðir og taka ekki við nýjum sjóðsfélögum. A-deildin er söfnunarsjóður, en við stofnun hennar, árið 1997, voru sett lög sem segir að deildin skuli á hverjum tíma eiga eignir til að mæta skuldbindingum sínum. Allvel gekk að halda jafnvægi milli eigna og skuldbindinga fyrstu árin, en í hruninu varð LSR fyrir miklu tjóni og frá þeim tíma hefur verið verulegur halli á A-deildinni. 2012 var fimmta árið í röð þar sem munur á eignum og skuldbindingum var meiri en 10%. Munurinn um síðustu áramót var 12,5% eða 60,9 milljarðar.

Verða að grípa til aðgerða fyrir 1. október

Samkvæmt lögum verða stjórnir lífeyrissjóða að grípa til aðgerða til að jafna halla á sjóðum þegar hallinn er búinn að vera meiri en 10% í fimm ár samfleytt. Verði lögum ekki breytt verður stjórn LSR því að grípa til aðgerða fyrir 1. október. Fjármálaráðuneytið er með þetta mál til skoðunar, en engar ákvarðanir hafa verið teknar. Hugsanlegt er að fjármálaráðherra leggi fram frumvarp á septemberþingi sem gefi lífeyrissjóðunum lengri frest til að bregðast við stöðunni en þessi fimm ár.

Alþingi hefur oftar en einu sinni á síðustu árum breytt lögum til að gefa lífeyrissjóðunum meira svigrúm til að reka þá með halla. Slík lagabreyting er ekki til annars en að fresta vandanum. Ekkert hefur verið tekið á vanda LSR frá hruni, en á sama tíma hafa lífeyrissjóðir á almennum markaði skert lífeyrisréttindi sinna sjóðsfélaga til að rétta af halla á sjóðunum.

Hækka þarf iðgjaldið í 20,1% til að ná jöfnuði

Hægt er að laga stöðu LSR með því að skerða réttindi eða hækka lífeyrisaldur, en stjórn LSR getur ekki tekið slíkar ákvarðanir í ósamkomulagi við fulltrúa launþega. Eina úrræðið sem stjórnin hefur er að hækka iðgjaldið. Það er 15,5% í dag, en samkvæmt útreikningum Talnakönnunar þarf það að hækka í 16,4% til að munir á eignum og skuldbindingum fari niður í 10%, 18,3% til að þær fari niður í 5% og 20,1% til að fullt jafnvægi náist milli eigna og skuldbindinga.

Ríkissjóður greiddi yfir 120 milljarða í laun á síðasta ári og því kostar hækkun iðgjalda um 1 prósentustig ríkissjóð um 1,2 milljarða á ári. Ef ætti að ná fullum jöfnuði með iðgjaldahækkun myndi það kosta ríkissjóð um 5,5 milljarða á ári. Sveitarfélögin greiða einnig iðgjöld til LSR af hluta starfsmanna sinna og því myndi iðgjaldahækkun einnig auka útgjöld þeirra.

Helstu rökin fyrir því að fresta málinu nú er að nefndir eru starfandi sem eru að reyna að ná samkomulagi um heildarbreytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Ólíklegt er að samkomulag verði í höfn fyrir 1. október.

466 milljarða króna vantar í LSR

B-deildin er aðeins að hluta til byggð á sjóðssöfnun, en að hluta til á gegnumstreymiskerfi. Áfallnar skuldbindingar deildarinnar voru um síðustu áramót 361,9 milljarðar króna umfram eignir. Munur á eignum og skuldbindingum Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga eru 43 milljarðar. Samtals vantar því 466 milljarða inn í A- og B-deild LSR og LH. Hallinn jókst milli ára um rúmlega 22 milljarða.

Eins og áður segir eru B-deildin og LH að hluta til gegnumstreymissjóðir. Þar hefur því til margra ára safnast upp skuld sem fellur til á næstu árum og áratugum. Þar sem búið er að loka sjóðunum fyrir nýjum sjóðsfélögum lækka iðgjaldagreiðslurnar ár frá ári. Sjóðirnir greiða núna hærri lífeyri til þeirra sem komnir eru á eftirlaun en sem nemur árlegum tekjum sjóðanna. Það gengur því hratt á eignir þeirra. Samkvæmt útreikningum Talnakönnunar tæmast sjóðirnir á árunum 2027-2028 ef ríkið greiðir ekki meira inn í sjóðina.

Í fyrra greiddu B-deildin og LH samtals 26,4 milljarða í lífeyri. Ef sjóðirnir hefðu verið tómir á þeim tíma hefði þessi upphæð alfarið þurft að koma úr ríkissjóði.

Fyrir hrun greiddi ríkissjóður inn í LSR umfram lagaskyldu. Ef tekið er tillit til ávöxtunar nema þessar greiðslur 167,6 milljörðum í B-deild og 16,3 milljörðum í LH. Ef að þessar greiðslur hefðu ekki komið til hefðu sjóðirnir tæmst á árunum 2016-2018.

Meðal þeirra stétta sem eiga lífeyrisréttindi í LSR eru lögreglumenn.
Meðal þeirra stétta sem eiga lífeyrisréttindi í LSR eru lögreglumenn. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert