Vilja launahækkun frá 2011

Forstöðumaður FFR segir umboðsmann Alþingis hafa sent kjararáði ábendingar í …
Forstöðumaður FFR segir umboðsmann Alþingis hafa sent kjararáði ábendingar í kjaradeilunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) fór þess á leit við kjararáð að frysting launahækkana sem gerð var á árinu 2009 rynni út í desember 2011 en ekki í október 2012 eins og ráðið úrskurðaði.

Þetta segir Magnús Guðmundsson, forstöðumaður félagsins, og vísar til þess að Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hafi hinn 7. maí síðastliðinn sent kjararáði úrskurð vegna kvörtunar félagsins með ábendingum um hvernig það gæti bætt ráð sig í þessu efni.

Engu að síður hafi kjararáð sent félaginu bréf hinn 28. júní síðastliðinn þar sem fram komi að laun forstöðumanna verði ekki leiðrétt lengra aftur en til október 2012.

„Við höfum reynt að fást við kjararáð. Við kvörtuðum undan því til umboðsmanns Alþingis sem tók sér mjög langan tíma í málið. Hann skilaði áliti 7. maí sl. Þar gerir hann ýmsar aðfinnslur við starf kjararáðs og kemur með ábendingar. Það tók um 18 mánuði að fá svar frá umboðsmanninum. Hann telur að ráðið eigi að bæta ráð sitt og að það eigi að taka til endurskoðunar beiðni okkar um að frysting á laununum myndi gilda þangað til lögin um tveggja ára frystingu runnu út í desember 2011. Ákvæðið var tímabundið.

Þetta var hins vegar aðeins leiðrétt frá október 2012. Umboðsmaður sagði að ráðið skyldi taka málið upp aftur. Síðan sendum við strax beiðni til kjararáðs og 28. júní sl. segist kjararáð ekki ætla að fara að tilmælum umboðsmanns. Það er mjög sérstakt og ámælisvert að stjórnvöld segist ekki ætla að fara að tilmælum umboðsmanns Alþingis,“ segir Magnús sem tekur fram að félagið hafi kvartað undan fleiri þáttum í starfi kjararáðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert