„Þau áttu öll þennan draum“

Martin Luther King í Washington 28. ágúst 1963.
Martin Luther King í Washington 28. ágúst 1963. Wikipedia

„Þannig var að 1963 var ég á Fulbright-prógrammi í Bandaríkjunum fyrir æskulýðsleiðtoga. Við fengum þar meðal annars mjög ítarlega og viðamikla kynningu á bandarísku þjóðlífi og menningu og á meðal þeirra sem ræddu við okkur var Martin Luther King. Hann talaði við okkur lengi dags um baráttumálin sem voru þá mjög í brennidepli. Hann var lágvaxinn maður, grannur en einkennilega höfuðstór og heillandi í viðkynningu.“

Þetta segir sr. Bernharður Guðmundsson, fyrrverandi rektor Skálholtskóla, í samtali við mbl.is spurður út í kynni sín af bandaríska mannréttindafrömuðinum Martin Luther King. Hann var ásamt eiginkonu sinni, Rannveigu Sigurbjörnsdóttur, viðstaddur þegar King flutti hina frægu ræðu sína „I have a dream“ 28. ágúst 1963 við Lincoln-minnisvarðann í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, fyrir framan um 250 þúsund áheyrendur. Sá atburður er fyrir löngu orðinn sögulegur og markaði tímamót í mannréttindabaráttu þeldökkra Bandaríkjamanna.

Glaðlyndur en alvarlegur þegar þurfti

„Við vorum þarna á Capitol Hill, þessi stóri hópur æskulýðsleiðtoga frá 83 löndum. Við vorum all nálægt ræðustólnum þar sem við vorum gestir Bandaríkjastjórnar og sáum því vel það sem fram fór. Það var óskaplega sterk tilfinning að vera þarna. Þarna var fólk eins langt og augað eygði og einmitt við þessi orð hans, „I have a dream“, var eins og það væri endurhljómur í brjóstum þessa fólks alls í kringum okkur. Þau áttu öll þennan draum,“ segir Bernharður. „Mér var sagt  að hann hafi átt í nokkru basli með ræðu sína, hafi ekki gefist nægjanlegt tóm til að vinna hana. Áður en hann tók til máls söng Marian Anderson baráttusönginn fræga „We shall overcome“ og hún hafi síðan hvíslað: „Talaðu nú um drauminn þinn Martin“ og hann gerði það, bætti þessum kafla sem orðinn er sígildur inn í á staðnum.“

„Ég man eftir því að hann hreyfði sig lítið þegar hann var að tala. Hann hafði löngum hendur í vösum en þumalputtinn stóð út úr vasanum. En hann hafði, sem ég sá síðar þegar ég kynntist Desmond Tutu, þessar brosviprur sem komu mjög fljótt í andlitið á honum í kringum augun og munninn. En hins vegar var alveg augljóst með þá báða að þeir tóku alvarlegum málum af mikilli alvöru en þeir tóku hins vegar sjálfa sig ekki mjög hátíðlega, þessir miklu leiðtogar í réttindabaráttunni, sem reyndar voru báðir prestar,“ segir hann.

Sjálfstjórn, útgeislun og áhrif á fólk

„Það var líka áberandi hvað Martin Luther King kunni vel að nýta þögnina. Hann var látleysið holdi klætt en málflutningur hans var þannig að það gaf manni tóm til þess að hugsa um það sem hann var að segja. Raddbeitingin var líka alveg frábær. Stundum hvíslaði hann og stundum hrópaði hann. Hann hafði að sama skapi mikla sjálfstjórn, bjó yfir mikilli útgeislun og hafði sterk áhrif á fólk. Það var grafarþögn er hann talaði. Hann hafði mikið erindi að flytja. Við skynjuðum glögglega að þarna voru tímamót, réttindabaráttan fékk annan sess, annan blæ, annan þunga en áður og nú er svartur maður forseti Bandaríkjanna.“

Hægt er að horfa á ræðu Martins Luthers Kings hér að neðan. Styttri útgáfa af ræðunni má finna hér.

Um 250 þúsund manns hlýddu á ræðu Martin Luther King …
Um 250 þúsund manns hlýddu á ræðu Martin Luther King 28. ágúst 1963. Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert