Skammarleg og hneykslanleg kynferðisbrot

Messa í kaþólsku kirkjunni.
Messa í kaþólsku kirkjunni. mbl.is/ÞÖK

Pétur Bürcher, biskup kaþólsku kirkjunnar, segir að hin hörmulega kynferðislega misnotkun á börnum af hendi kristinna manna, einkum þegar vígðir þjónar kirkjunnar eigi í hlut, sé afar skammarleg og fram úr hófi hneykslanleg.

Skýrsla fagráðs kaþólsku kirkjunnar, sem Pétur stofnaði í nóvember 2012 undir forsæti Eiríks Elísar Þorlákssonar, var lögð fyrir biskup í lok vikunnar, að því er kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurbiskupi. 

Hlutverk fagráðsins var m.a. að veita biskupi kirkjunnar álit á því hvort kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot hafi átt sér stað innan kirkjunnar.

Bréf send til þeirra sem leituðu til fagráðsins

„Fyrri rannsóknarnefndin birti skýrslu sína í september 2012. Báðar þessar skýrslur munu hjálpa biskupi og stjórn kaþólsku kirkjunnar við að grípa nú, og til framtíðar, til áþreifanlegra ráðstafana með tilliti til þolenda sem hafa gefið sig fram, einkum hvað snertir undirbúningsvinnu við forvarnir,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur jafnframt fram, að í dag hafi einnig verið sent bréf til þeirra aðila sem leituðu skriflega til Fagráðsins.

„Stjórn kaþólsku kirkjunnar á Íslandi mun nú grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana svo að hægt verði að taka á móti þeim aðilum sem þess óska og leiðbeina þeim. Af tillitssemi við viðkomandi einstaklinga verður þessi skýrsla ekki birt opinberlega og mun hún þjóna kaþólskum yfirvöldum sem vinnuskjal eins og ráðgert var. Endanleg yfirlýsing stjórnar Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi verður fullbúin í síðasta lagi fyrir 15. nóvember 2013 og verður send hlutaðeigandi sérstaklega.

Kaþólska kirkjan á Íslandi birtir einnig í dag skjal (sjá vefsíðuna www.catholica.is) þar sem lýst er áþreifanlegum ráðstöfunum sem gripið verður til svo að koma megi í veg fyrir kynferðislega misnotkun og ofbeldi í framtíðinni,“ segir í tilkynningunni.

Biðjum og fyrirgefum

„Í nafni Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi beinist hugur minn að öllum þeim sem telja á sér brotið sem þolendum, sem og til fjölskyldna þeirra. Hin hörmulega kynferðislega misnotkun á börnum af hendi kristinna manna, einkum þegar vígðir þjónar kirkjunnar eiga í hlut, er afar skammarleg og fram úr hófi hneykslanleg. Á þeim sem ábyrgð bera hvílir sú brýna og lífsnauðsynlega skylda að biðjast fyrirgefningar. Að lokum ber í sama anda að leggja áherslu á þá viðleitni Kaþólsku kirkjunnar, sérstaklega síðustu árin á alþjóðlegum vettvangi, að skapa öruggt umhverfi, einkum handa börnum. Í anda samkirkjulegrar einingar er bráðnauðsynlegt að við störfum öll saman, biðjum, fyrirgefum og vonum að slíkar misgjörðir gerist ekki í framtíðinni,“ segir Pétur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert