Umbreyta fiskroði í lækningavöru

Á pakkalofti gamla Íshúsfélagshússins á Ísafirði hefur Kerecis aðsetur og framleiðir þar meðferðarvörur við vefjaskaða úr fiskiroði og krem við húðsjúkdómum úr Omega3 olíu.

Fram að þessu hefur Kerecis verið nýsköpunar- og rannsóknarfyrirtæki, en er nú að taka sín fyrstu skref sem sölu-, markaðs- og framleiðslufyrirtæki og hyggur á umsvif víða.Í meðförum Kerecis verður þorskroð að öflugu meðferðarefni sem sett er á þrálát sár, sem myndast t.d. við áunna sykursýki, og stuðlar að því að þau grói.

Guðmundur F. Sigurjónsson er framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Kerecis. „15% allra þeirra sem eru með sykursýki fá þrálát sár og alvarlegasta afleiðing slíkra sára er aflimun. Í Bandaríkjunum hafa 1,2 milljónir manna verið aflimaðar á undanförnum árum vegna þrálátra sára. Ástandið er enn alvarlegra í sumum heimsálfum, t.d. er tíðni sykursýki í arabalöndunum 20%. Í gamla daga voru aðallega notaðar grisjur til að meðhöndla þrálát sár en það nýjasta í meðhöndluninni eru líffræðileg efni sem búin eru til úr húð látins fólks en einnig úr svínaþörmum og öðrum vefjum spendýra. Við höfum hins vegar þróað aðferð til að nota roð í þessum tilgangi,“ segir Guðmundur.

Hann segir Kerecis eina fyrirtækið sem notar fiskroð í þessum tilgangi. Roðið er af eldisþorski í Ísafjarðardjúpi og er fengið frá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru og Klofningi.

Við meðhöndlun Kerecis eru allar frumur fjarlægðar úr roðinu. „Þá stendur eftir roðbútur sem samanstendur af próteingrind og Omega3 olíum,“ segir Dóra Hlín Gísladóttir, rekstrar- og þróunarstjóri Kerecis.„Roðbúturinn er næstum því eins og svampur sem frumurnar klifra inn í og leita skjóls þegar þær græða sárið.“ Allir ofnæmisvaldar eru fjarlægðir og roðið skorið í örþunna ferninga, sem eru lagðir í vatn fyrir notkun. Þeir eru ekki ósvipaðir þunnum plástrum og úr roði hvers þorsks fást 8-10 slíkir. Efninu er komið fyrir ofan í sárinu og ef aðstæður eru réttar skríða heilbrigðar frumur inn í efnið og umbreyta því í húð á nokkrum vikum.“

Nú þegar hafa verið gerðir dreifingarsamningar fyrir sárameðhöndlunarefnið í Bretlandi og Mið-Austurlöndum og unnið er að því að fá markaðsleyfi í Bandaríkjunum.

Guðmundur segir gott að vera með framleiðslu á Vestfjörðum og stuðningur nærsamfélagsins sé mikill. Líklegt sé að starfsfólki muni fjölga í takt við aukna framleiðslu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert