Nærri 500 sóttu um 20 íbúðir

Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á milli 400-500 umsóknir bárust um 20 leiguíbúðir sem Eir auglýsti nýverið á almennum markaði. Sveinn Magnússon, hjá Eir, segir þennan fjölda endurspegla ástandið á leigumarkaðinum.

Eir byggði á sínum tíma öryggisíbúðir við hlið hjúkrunarheimilisins. Íbúðirnar voru hugsaðar fyrir eldri borgara og fólk sem á við vanheilsu að stríða. Ekki tókst hins vegar að leigja allar íbúðirnar vegna þess að dráttur varð á því að borgin byggði þjónustubyggingu við heimilið. Framkvæmdir við bygginguna standa yfir og stefnt er að því að klára þær á næsta ári.

Sveinn segir að verið sé að ganga frá síðustu leigusamningum. Eftir sé að leigja eina tveggja herbergja íbúð og fjórar þriggja herbergja íbúðir. Hann segir að um sé að ræða tímabundna leigu til tveggja ára.

Sveinn sagði að þeir sem leigi íbúðirnar sé fólk á ýmsum aldri, m.a. fólk með börn. Hann segir að lögð hafi verið áhersla á að velja inn í íbúðirnar fólk sem taki tillit til þarfa íbúa sem bjuggu þar fyrir. Það hafi gengið vel því umsóknir hafi verið margar.

Eir var í sumar úrskurðað í greiðslustöðvun. Greiðslustöðvun var framlengd 9. september í tvo mánuði. Unnið er að því að ná samkomulagi við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu Eirar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert