Skattur á fátækt fólk

AFP

Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að mótuð verði viðskiptastefna með það að markmiði „að jafna samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart erlendri og lækka vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur.“ Slík stefna verði lögð fram á þingi í formi þingsályktunartillögu fyrir 1. júlí á næsta ári.

„Liður í að ná þeim markmiðum er að endurskoða fyrirkomulag skattamála, þ.m.t. tolla og vörugjalda. Ísland er ekki í tollabandalagi og hafa stjórnvöld fullt forræði á að lækka tolla,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Stjórnvöld hafi hins vegar til þessa fylgt þeirri stefnu að lækka ekki tolla nema á grunni gagnkvæmra ívilnana í gegnum Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO), Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) eða með tvíhliða samningum. Þá hafi verið litið svo á að niðurfelling tolla einhliða veikti samningsstöðu Íslands í fríverslunarviðræðum.

„Um leið og taka má undir mikilvægi þess að fjölga eigi fríverslunarsamningum og ýta undir fríverslun í heiminum á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana á sú viðleitni ekki að girða með öllu fyrir að íslensk stjórnvöld lækki álögur einhliða og án gagnkvæmra ívilnana,“ segir ennfremur. Þá segir að eins og staða mála sé í dag séu vörugjöld og tollar skattur á fátækt fólk enda sitji þeir upp með hærra vöruverð sem ekki hafa efni á að ferðast til annarra landa til þess að versla.

Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert