Leggur til 160 þúsund tonna loðnukvóta

Á loðnuveiðum.
Á loðnuveiðum. mbl.is/RAX

Hafrannsóknastofnun leggur til, að heildaraflamark á komandi loðnuvertíð verði 160 þúsund lestir. Þessi tillaga byggir á mælingum, sem gerðar voru í september og október. Ný mæling verður í janúar og febrúar og kann tillagan að verða endurskoðuð í kjölfar þess.

Að sögn Hafrannsóknastofnunar hélt eldri loðna sig einkum á norðurhluta rannsóknasvæðisins við Austur-Grænland og mældust rúm 600 þúsund tonn af kynþroska loðnu, eða tæpir 33 milljarðar fiska, sem gert sé ráð fyrir að hrygni á komandi vertíð. Miðað við forsendur um náttúruleg afföll og vöxt fram að hrygningu megi gera ráð fyrir að hrygningarstofn loðnu verði um 560 þúsund tonn á hrygningartíma verði ekkert veitt. Samkvæmt aflareglu sé gert ráð fyrir að skilja eftir 400 þúsund tonn til hrygningar.

Loðnukvótinn á síðustu vertíð var 461 þúsund tonn. Upphafskvótinn var 300 þúsund lestir en kvóta var bætt við síðar á vertíðinni.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka