„Atvinnumaður“ í afbrotum

Stefán Blackburn í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Stefán Blackburn í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Einn þeirra sem ákærðir eru ásamt Stefáni Loga Sívarssyni fyrir stórfelldar líkamsárásir og frelsissviptingu er Stefán Blackburn, fæddur árið 1991. Þrátt fyrir ungan aldur er hann enginn nýgræðingur í afbrotum og hefur undanfarin sjö ár verið meira og minna í umsjá fangelsismálayfirvalda.

Nafnið Stefán Blackburn hefur ekki endilega heyrst oft í fjölmiðlum en óhætt er að segja að fjölmiðlamenn hafi fylgst vel með Stefáni undanfarin ár, í gegnum afbrotaferil hans. Hófst sú eftirfylgni með því að fjallað var um fimmtán ára strák sem haldið var í fangelsi og spurðu menn sig og fangelsismálayfirvöld hvort það væri í lagi.

Enn má spyrja sömu spurningar og velta því fyrir sér hvort öðruvísi væri farið með Stefán Blackburn ef öðrum úrræðum hefði verið beitt.

Föstudaginn 22. desember 2006 braust Stefán í félagi við annan mann inn í grunnskóla á Selfossi og stal þaðan tölvubúnaði, myndavél og fleiri munum sem voru verðmetnir á 407 þúsund krónur. Hann hafði ekki áður sætt refsingu og dómurinn leit til þess og eins að hann var nýorðin fimmtán ára þegar hann framdi brotið. Refsingu Stefáns var því frestað.

En Stefán var rétt að byrja

Í febrúar 2008 kvað Hæstiréttur upp dóm yfir fimm mönnum, fimm ungum mönnum. Um var að ræða hið alræmda Árnesgengi. Meðlimir hafa margir hverjir valið - eða ekki - að ganga á skjön við viðteknar venjur, lög og reglur.

Þyngst í dómnum í febrúar 2008 vó líkamsárás Stefáns á leigubílstjóra í apríl 2007. Sextán ára var Stefán þegar hann sló leigubílstjórann tvisvar sinnum í höfuðið með hamri. Í framburði heila- og taugaskurðlæknis sagði að brotið í höfuðkúpu bílstjórans hafi verið eins og far eftir hamarshaus og að mikið högg hefði þurft til að valda slíkum áverka.

Bílstjórinn hlaut varanlegan vefjaskaða og var árásin bæði talin fólskuleg og stórhættuleg.

Stefán var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir árásina og miklu fleiri brot sem framin voru af Árnesgenginu, þar á meðal tvær líkamsárásir til viðbótar, ýmis auðgunarbrot, þrjú fullframin rán og eina ránstilraun. Hann hafði í mánuðinum áður hlotið 20 mánaða dóm.

En Stefán var ekki hættur

Stefán var dæmdur 16. mars 2010 til 30 daga fangelsisrefsingar vegna þjófnaðar og 10. nóvember 2011 gekkst hann undir viðurlagaákvörðun vegna umferðarlagabrota.

Í apríl á síðasta ári dæmdi svo Héraðsdómur Suðurlands Stefán, sem þá var tvítugur, í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir tvö rán. Í niðurstöðu dómsins segir að ránsbrotin, sem framin voru með nokkurra daga millibili, hafi verið alvarleg, framin í samverknaði og til þess fallin að vekja ótta þeirra sem fyrir urðu. Ógnaði Stefán mönnum með hafnaboltakylfu.

Þá dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Stefán í 14 mánaða fangelsi 21. júní 2013 fyrir fjársvik, vopnalagabrot og umferðarlagabrot. Stefán ók sex sinnum undir áhrifum vímuefna og í eitt skiptið notaði hann farsíma án handfrjáls búnaðar. Þá var hann vopnaður hnífi fyrir utan skemmtistað í miðborg Reykjavíkur, greiddi ekki fyrir leigubíl sem hann tók og stal bifreið.

Í málinu sem þingfest var í morgun er Stefáni Blackburn gefin að sök aðild að líkamsárásum og frelsissviptingu. Þar aðstoðaði hann vin sinn Stefán Loga Sívarsson en báðir komu meðal annars við sögu þegar ráðist var á Stefán Loga í Ystaseli í Breiðholti í maí. Herma heimildir mbl.is að árásin hafi verið vegna misgjörða Stefáns Blackburn og tengist það framhaldsákæru sem tilkynnt var um við þingfestinguna í morgun.

Málið sem þingfest var í morgun gegn Stefáni Loga, Stefáni Blackburn og þremur til viðbótar er mjög alvarlegt. Í gæsluvarðhaldsúrskurði segir þetta um málið: „Að mati dómsins er um að ræða mjög alvarleg og svívirðileg brot og gæti það valdið óróa og ótta í samfélaginu um áframhaldandi ofbeldisbrot ákærða verði hann látinn laus.“

Næsta þinghald í málinu verður 7. nóvember og þá gefst verjendum færi á að skila greinargerð. Aðalmeðferð er svo fyrirhuguð 9.-11. desember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert