„Mín framtíðarsýn sem snýr að fæðingarorlofinu er þess vegna sú að taka skerðingarnar til baka áður en aukið er við réttinn. Ég tel líka mjög mikilvægt að þegar við förum í lenginguna höfum við gott samráð við alla aðila vinnumarkaðarins en ekki einstaka þeirra. Þegar kemur að því að brúa bilið milli fæðingarorlofsins og leikskólanna tel ég mjög mikilvægt að huga að því samhliða hugsanlegum breytingum, eins og menn hafa verið að tala um, í þá átt að stytta þann tíma sem nemendur eru í skólakerfinu fram að framhaldsskóla. Þar undir þurfa leikskólarnir að vera og hlutverk sveitarfélaganna.“
Þetta sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um stöðu Fæðingarorlofssjóðs en frumkvæði að henni hafði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Vísaði Eygló þar til ítrekaðra skerðinga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sem farið hefði verið í á árunum eftir hrun. Steingrímur spurði hana að því hvort núverandi ríkisstjórn hefði fallið frá öllum áformum um lengingu fæðingarorlofs og ennfremur hvort ráðherrann hefði einhverja sýn á það hvernig ætti að vinna að því framtíðarmarkmiði að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.
„Ef fæðingarorlofið lengist ekki verður það verk torsóttara en ella sem nemur þeim mánuðum sem upp á vantar. Alveg nóg væri að glíma við það miðað við eins árs fæðingarorlof, hvað þá bara níu mánaða. Ég vonast til þess að hæstvirtur ráðherra geti upplýst okkur eitthvað um það hvort þessi ríkisstjórn hefur einhverja stefnu í málefnum fæðingarorlofs,“ sagði Steingrímur. Sagði hann ennfremur að miðað við þau gögn sem hann hefði frá Fæðingarorlofssjóði yrði umtalsverður halli á rekstri stofnunarinnar á næsta ári vegna þess að sjálfstæður tekjustofn hennar af tryggingagjaldi væri lækkaður verulega samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
Eygló sagði ennfremur að þegar farið hefði verið í það að skoða mál Fæðingarorflofssjóðs í undirbúningi fjárlagafrumvarpsins hefði komið á daginn að ekki hafi verið búið að fjármagna þá lengingu fæðingarorlofsins sem ætlunin hafi verið að fara í. Þessu mótmælti Steingrímur og sagði að ef tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs hefði haldist óbreyttur gæti stofnunin ráðið við lengingu fæðingarorlofsins.