Tókust á um fjárlög og hundalógík

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Rósa Braga

„Með sömu hundalógík og háttvirtur þingmaður heldur fram hér væri væntanlega hægt að auka tekjur ríkisins út í hið óendanlega með því að hækka skatta endalaust. En það var reyndar líklega sú stefna sem síðasta ríkisstjórn fylgdi með þeim árangri sem við sáum á síðasta kjörtímabili.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í svari við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag en Steingrímur gerði að umtalsefni sínu skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir tímabilið janúar–júní 2013 þar sem meðal annars kæmi fram að greiðsluhalli ríkissjóðs um mitt þetta ár hefði verið heldur minni en áætlanir tímabilsins hefðu gert ráð fyrir. 

„Það er sem sagt heldur betri útkoma á greiðslujöfnuði en áætlanirnar höfðu gert ráð fyrir. Sé samræmi yfir í rekstrarafkomuna mundi þetta að breyttu breytanda ekki benda endilega til þess að endanleg útkoma ríkissjóðs á þessu ári á rekstrargrunni yrði mjög frábrugðin því sem fjárlög gerðu ráð fyrir,“ sagði hann og beindi þeirri fyrirspurn meðal annars til forsætisráðherra hvort ekki mætti ætla að fyrri fjárlög hefðu staðist nokkurn veginn ef ekki hefði verið fyrir ákvarðanir nýrrar ríkisstjórnar um minni tekjur ríkissjóðs og meiri útgjöld.

Ekki vegna aðgerða nýrrar ríkisstjórnar

„En hér erum við fyrst og fremst að ræða um halla ársins 2013. Hann verður, eins og meðal annars hefur komið fram á þeim fundi sem háttvirtur þingmaður nefndi, margfalt meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, illu heilli. Það er ekki vegna breytinga sem núverandi ríkisstjórn gerði. Það er einfaldlega vegna þess hvernig síðasta ríkisstjórn skildi við málið,“ sagði Sigmundur. Ríkisstjórn hans hefði að vísu fallið frá gistináttagjaldi en það væri til þess að stuðla að aukinni veltu í ferðaþjónustunni sem á endanum skilaði sér til ríkissjóðs.

Steingrímur gaf lítið fyrir þær hugmyndir að skattalækkanir leiddu til meiri tekna fyrir ríkissjóð og sagði þær þvælu. Spurði hann hvort ekki mætti þá lækka skatta niður úr öllu valdi til þess að auka tekjur ríkissjóðs. Ráðherrann svaraði því þá til sem áður segir að með sömu hundalógík mætti væntanlega hækka tekjur ríkisins út í hið óendanlega með því að hækka skatta endalaust. Hann lauk svari sínu með því að spyrja að því hvernig fjárlögin hefðu komið út til að mynda ef Steingrímur hefði fengið Icesave-samningana samþykkta sem hefðu þýtt að tugir milljarða í erlendri mynt hefðu farið úr landi.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert