Vinur forsetans í 30 ár

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef verið vinur forseta lýðveldisins í 30 ár. Það hafa stundum verið uppstyttur í þeirri vináttu en við erum vinir áfram,“ sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, í umræðum á Alþingi í dag.

Áður hafði Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagt að það væri lýðræðinu ekki til framdráttar að ráðast á forseta Íslands. Tilefnið er nýjar endurminningabækur Össurar og Steingríms J. Sigfússonar þar sem þeir fara hörðum höndum um forsetann, Ólaf Ragnar Grímsson.

„Ég vil ekki að það liggi eftir í þingtíðindum sem kom fram í áburði eins af forystumönnum stjórnarliðsins á hinu háa Alþingi að ég hafi í bók, sem ég sannarlega gengst við að hafa skrifað en háttvirtur formaður þingflokks Framsóknarflokksins sannanlega hefur ekki lesið, borið forseta lýðveldisins sökum eða ráðist á hann. Mér þykir miður að heyra slíkt,“ sagði Össur.

„Það er alveg ljóst að í þeirri bók, sem ég vona að háttvirtur þingmaður lesi í fyllingu tímans, er ekkert sem gefur tilefni til þessara ályktana.“

Sigrún sagði að tilgangur bóka Össurar og Steingríms væri eflaust að réttlæta störf og framgöngu þeirra í Landsdómsmálinu. „Að því er varðar ásakanir hennar um Landsdóm tel ég mig í hópi þeirra manna sem hafa ekkert að skammast sín fyrir í þeim efnum,“ svaraði Össur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert