Forsætisráðherra fengi ekki háa einkunn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kvörtuðu undan því á Alþingi í dag að forsætisráðherra hefði eytt tíma þeirra til einskis með skýrslugjöf þar sem ekkert nýtt hefði komið fram. 

Sigmundur Davíð sagði óhikað mega halda því fram að skuldaleiðréttingin sem fram undan sé verði sú mesta sem ráðist hafi verið í, allavega á síðari tímum. Hann sagði eðlilegt að tími væri tekinn í að undirbúa slíka framkvæmd og ráðfæra sig við sérfræðinga.

Enginn ráðherra Sjálfstæðisflokksins var viðstaddur umræðuna um skuldaleiðréttingar.

Margar spurningar vöknuðu

Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru ekki upplýstir efnislega um það fyrirfram hvað koma myndi fram í munnlegri skýrslu forsætisráðherra í dag. Þeir fjölmenntu því í salinn til að hlýða á ræðu hans. Í henni kom í stuttu máli fram að 10 liða aðgerðaráætlun, sem samþykkt var með þingsályktunartillögu í sumar, sé á áætlun og að vinna sé að hefjast í forsætisráðuneytinu við frumvarp um leiðir til leiðréttinga.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sté í pontu eftir skýrsluna og sagði margar spurningar óneitanlega vakna. Nokkrum þeirra beindi hún til forsætisráðherra og spurði meðal annars:

Hvaða tillögur um leiðir til skuldaleiðréttingar eru tilbúnar? Hafa einhverjar þeirra verið ræddar í ríkisstjórn? Er komin einhver stærðargráða á það svigrúm sem mun myndast með samningum við kröfuhafa bankanna? Ef sett verður þak á þá fjárhæð sem hvert heimili getur fengið, við hvað verður það þak þá miðað? Við tekjur heimilanna eða við skuldir?

Stór fyrirheit sem verði staðið við

Þessum spurningum Katrínar svaraði Sigmundur Davíð ekki þegar hann sté aftur í pontu í lok umræðunnar. Hins vegar sagði hann að eftir að hafa hlýtt á stjórnarandstöðuna hefði verulega dregið úr áhyggjum hans um að þingmenn hennar geti þvælst fyrir því að skuldaleiðréttingar verði framkvæmdar.

„Vegna þess að helstu gagnrýnendur mættu algjörlega tómhentir til þessarar umræðu,“ sagði Sigmundur Davíð og nefndi sérstaklega Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, sem sagði fátt benda til þess að nokkuð verði í hendi um skuldamál heimilanna fyrir áramót.

„Þetta er bara vitleysa,“ sagði forsætisráðherra og endurtók að þrátt fyrir að fyrirheitin í kosningum hafi verið mjög stór þá liggi nú fyrir að allt sé samkvæmt áætlun við framkvæmd þeirra.

„Eða ætlar einhver að halda því fram að þegar ráðist verður í skuldaleiðréttinguna, sem hægt er að halda óhikað fram að sé sú mesta sem ráðist hefur verið í, allavega á síðari tímum, að þá hafi verið rangt að leita til sérfræðinga?“

Sigmundur Davíð ítrekaði að leiðréttingarnar muni standast og verði „fyrir alla þá sem urðu fyrir tjóni vegna hins ófyrirséða verðbólguskots áranna frá 2007 til 2010.“ Ekki sé seinna vænna að koma til móts við þann „afskipta hóp“ og gera það faglega og vel.

Ómaklega vegið að stjórnarandstöðu

Ásakanir forsætisráðherra á hendur stjórnarandstöðunni komu illa við þingmenn hennar og stigu nokkrir þeirra aftur í pontu. Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata sagði ómaklegt af Sigmundi Davíð að setja málið þannig fram að minnihlutinn væri ástæðan fyrir seinagangi málsins.

„Minnihlutinn hefur ekki gert neinar tilraunir til að standa í vegi fyrir þessum aðgerðum forsætisráðherra,“ sagði Birgitta. Flokksbróðir hennar Jón Þór Ólafsson gaf lítið fyrir skýrslu ráðherra og sagði að í skólakerfinu fengi hann ekki góða einkunn fyrir svona skýrslugjöf um framgang mála.

Þing og þjóð í óvissu

Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingar benti á að stjórnarandstöðuþingmenn hefði ekki haft val um annað en að mæta tómhentir í pontu því þeir hafi ekki fengið neinar upplýsingar um gang mála.

Hann gagnrýndi að tíma þingsins væri eytt til einskis með skýrslugjöf um nákvæmlega ekki neitt. „Hér hefur ekkert verið upplýst um umfang aðgerða, tímasetningar, fjárhæðir eða nokkurn skapaðan hlut [...] í munnlegri skýrslu forsætisráðherra kom ekki neitt fram nema að allt gengi samkvæmt áætlun. Að verið sé að skrifa frumvarp sem ráðherra upplýsir þingið ekki um hvað inniheldur, né þjóðina.“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingar tók undir orð Helga Hjörvar og sagði að þingmenn hefðu kannski ekki verið að breyta plönum sínum til að mæta í þingsal og hlusta hefðu þeir vitað að skýrslugjöfin yrði svo „eymdarleg yfirferð“ um það eitt hvað búið væri að bæta við mörgum starfshópum.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna á Alþingi.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna á Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Alþingi.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson
Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar á Alþingi.
Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert