„Var að ljúga í gær eða fyrir 5 árum“

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarssonar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Al-Thani …
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarssonar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Al-Thani mál. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Páll Pálsson, sem sat í stjórn Kaupþings og í lánanefnd Kaupþings þegar bankinn féll, var harðorður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og sagði að annað hvort hefði Halldór Bjarkar Lúðvígsson, fyrrverandi viðskiptastjóri á útlánasviði Kaupþings, logið að lánanefndinni 2008 eða hann hefði verið að ljúga í vitnaleiðslunum í gær.

Gunnar Páll var þar að vísa til sem Halldór sagði í gær að rúmlega fimm milljarða króna lán til félags í eigu fjárfestisins Al Thanis hefði verið mútugreiðsla sem Al Thani hefði fengið fyrir að leggja nafn sitt við hlutabréfakaup í bankanum. Halldór hefði kynnt þetta mál með allt öðrum hætti fyrir lánanefndinni á sínum tíma. 

Gunnar Páll sagði að hann hefði haft stöðu grunaðs manns í þessu máli í næstum fimm ár. Hann sagði ótrúlegt að saksóknari hefði haldið sér í þeirri stöðu á grundvelli falsaðra gagna sem Halldór hefði lagt fram.

Spekúlantar að reyna að hagnast

Gunnar Páll var spurður út í fund lánanefndar þar sem lánveiting til Al Thani var kynnt. Hann sagði að margt hefði legið fyrir þessum fundi. Auk lánveitinga til Al Thanis hefði nefndin afgreitt sambærileg lán til Skúla Þorvaldssonar og Kevins Stanfords. Hann sagði að á þessum tíma hefðu engar vangaveltur verið um að bankinn væri að fara á hliðina og menn hefðu verið sannfærðir um að þetta væru örugg viðskipti.

Aðspurður sagði Gunnar Páll að með því að lána til kaupa á bréfum í bankanum hefðu menn verið að vonast eftir að skuldatryggingaálag bankans myndi lækka. Menn hefðu haft grun um að spekúlantar væru að reyna að hagnast á stöðunni og hefðu viljað sjá hve þrýstingurinn væri mikill.

Gunnar Páll sagði að lánanefndin hefði verið upplýst um að fyrirhugað væri að lána Al Thani 150 milljónir dollara, en nefndin hefði hefði hins vegar ekki fengið upplýsingar um sjálfskuldarábyrgð hans. 

Saksóknari spurði Gunnar Pál hvort hann kannaðist við umræðu um að hluti lánveitinga til Al Thani hefði verið fyrirframgreiddur hagnaður. Hann sagði að það hefði verið reiknað með að það yrði hagnaður af þessum viðskiptum. Hann tók líka fram að þegar verið var að lána félögum til hlutafjárkaupa í Kaupþingi hefði m.a. verið horft til þess að styrkja stöðu stórra viðskiptavina bankans.

Gunnar Páll var spurður um það sem hann sagði í vitnaleiðslum hjá lögreglu, að Ólafur Ólafsson hefði verið í gjörgæslu hjá bankanum. Hann sagði að það hefði legið fyrir að staða félaga sem Ólafur stýrði hefði verið að versna á þessum tíma. 

Gunnar Páll Pálsson, fyrrverandi formaður VR og stjórnarmaður í Kaupþingi.
Gunnar Páll Pálsson, fyrrverandi formaður VR og stjórnarmaður í Kaupþingi. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert