Krefjast þess að nefndin fái aðgang

Forsætisráðuneytið hefur ekki orðið við beiðni fjárlaganefndar Alþingis um aðgang að gögnum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Bjarkey Gunnarsdóttir þingkona og fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd undrast þá leynd sem forsætisráðneytið reynir að halda yfir gögnum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. „Það er engu líkara en að leyndarhyggjan hafi komið aftur í stjórnarráðið með nýrri ríkisstjórn,“ er haft eftir henni í fréttatilkynningu. Bjarkey hefur ásamt fulltrúum Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar óskað eftir því forseti Alþingis geri eitthvað í málinu.

 Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar í fjárlaganefnd sendu forseta Alþingis bréf í dag með kröfu um að hann beiti sér fyrir að fjárlaganefnd fái aðgang að gögnum sem hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur hefur stuðst við í vinnu sinni. Jafnframt óska þær eftir því að forseti útbúi verkferla sem tryggi að að þingnefndir geti óhindrað nýtt rétt sinn til að óska eftir upplýsingum frá framkvæmdarvaldinu.

29. október  óskaði fjárlaganefnd, með bréfi til forsætisráðuneytisins, eftir aðgangi að tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, fundargerðum, afrita af greinargerðum, gestakomum skýrslum og öðrum gögnum sem lögð hafa verið fram á fundum hópsins. Bréfið var sent að beiðni fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, þeirra Oddnýjar Harðardóttur, Bjarkeyjar Gunnarsdóttur og Brynhildar Pétursdóttur, á grundvelli 51. gr. þingskapa í kjölfar þess að formaður hagræðingarhópsins hafði upplýst á fundi nefndarinnar lokið störfum og að framhald málsins væri í höndum forsætisráðuneytisins.

Forsætisráðuneytið svaraði beiðni nefndarinnar sl. miðvikudag, 6. nóvember, með þeim hætti að að hópurinn vinni að lokafrágangi tillagnanna og að þær verði birtar á vef ráðuneytisins 11. nóvember nk. ásamt yfirliti yfir helstu gögn sem hagræðingarhópurinn studdist við í vinnu sinni.

Þingkonurnar þrjár benda í bréfi sínu á að í svari forsætisráðuneytisins komi fram að það muni ekki senda nefndinni þau gögn sem óskað var eftir heldur einungis birta yfirlit yfir „helstu gögn sem hagræðingarhópurinn studdist við í vinnu sinni.“ Þær benda á að sú ákvörðun sé ekki rökstudd sérstaklega í svarbréfinu og þær telji slíkt fara í bága við ákvæði 51. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis þar sem sérstaklega er tekið fram að: „aðeins [sé] heimilt að takmarka aðgang nefndar að gögnum að hagsmunir hennar af því að kynna sér efni þeirra eigi að víkja fyrir mun ríkari opinberum hagsmunum eða einkahagsmunum.“ Þá vísa þær einnig til þess að skv. sömu grein hefur ráðuneytið sjö daga til þess að verða við beiðni þingnefndar og að sá frestur sé útrunninn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert