Margt óljóst í máli hælisleitanda

Innanríkisráðuneytið
Innanríkisráðuneytið Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samtökin No Borders hyggjast í hádeginu mótmæla við innanríkisráðuneytið því sem þau kalla sundrun fjölskyldu frá Nígeríu. Til mótmælanna var efnt vegna brottvísunar hælisleitandans Tony Omos sem er í felum hér á landi. Samtökin halda því fram að hann eigi unnustu og ófætt barn hér á landi.

Í óformlegu minnisblaði innanríkisráðuneytisins sem mbl.is hefur undir höndum segir að Omos hafi komið hingað frá Sviss og óskað eftir hæli sem flóttamaður í október 2011.

Í umsókn hans um hæli hér á landi greindi Omos frá því að hann ætti unnustu í Kanada sem væri eins og hann frá Nígeríu. Hann kvaðst engin tengsl hafa við Ísland. Í viðtali hjá Útlendingastofnun sagðist hann svo hafa verið á leiðinni til unnustu sinnar í Kanada.

Beiðni hans um hæli var synjað og ákveðið að endursenda hann til Sviss ásamt hælisbeiðninni. Í nóvember 2011 hafi svissnesk stjórnvöld samþykkt að taka við honum aftur ásamt hælisumsókn hans á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Talsmaður hans hér á landi kærði þá niðurstöðu og krafðist þess að beiðni hans fengi efnismeðferð. Í greinargerð sem barst vegna þeirrar kröfu var enn á ný ítrekað að Omos ætti unnustu í Kanada og þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunnar að Omos hefði engin sérstök tengsl við landið var ekki mótmælt.

Innanríkisráðuneytið staðfesti í október 2013 ákvörðun Útlendingastofnunnar um að synja beiðni Omos um hæli.

Til rannsóknar og á von á barni

Eftir synjun ráðuneytisins barst krafa um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar svo Omos gæti borið málið undir dómstóla. Með þeirri kröfu fylgdu þær upplýsingar að Omos væri í sambandi með íslenskri stúlku. Hann hefði fyrir það verið í sambandi við konu sem einnig sé hælisleitandi hér á landi og sú kona eigi von á barni og Omos sé mögulega faðir þess barns. Þá sé Omos heilsuveill.

Ennfremur kom fram hjá talsmanni Omos að hann hafi ásamt fleirum stöðu grunaðs manns í tveimur umfangsmiklum málum sem upp komu í umdæmi Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Omos haldi fram sakleysi sínu og hafi ekki sætt áframhaldandi rannsókn. Lögreglan hafi ekki lokið rannsókn málanna og Omos bíði þess að geta hreinsað nafn sitt. Því þurfi hann að vera hér á landi.

„Barnsmóðirin“ mansalsfórnarlamb?

Ráðuneytið hafnaði fyrir helgi kröfunni. Í rökstuðningi ráðuneytisins segir að vegna frásagnarinnar um að hann sé hugsanlega faðir barns annars hælisleitanda sé á það bent að faðernisviðurkenning fari fram í kjölfar fæðingar barns. Í hælismáli konunnar sem á von á barni sé því svo borið við að hún sé mansalsfórnarlamb. Og raunar hafi Omos sjálfur haldið því fram í viðtali að hann eigi ekki barnið, þannig að hann sé tvísaga hvað það varðar.

Omos hafi svo sjálfur haldið því fram að unnusta hans sé búsett í Kanada og því séu skilyrði fjölskyldusamsetningar ekki uppfyllt. Engu breyti um það þó Omos segi nú að hann eigi íslenska unnustu.

Þá er á það bent að Omos sæti ekki áframhaldandi rannsókn lögreglu og því verði ekki fallist á að ástæða sé til að fresta réttaráhrifum svo hann geti hreinsað nafn sitt.

Ennfremur segir að Omos geti borið mál sitt undir íslenska dómstóla þó svo hann sé ekki sjálfur á landinu og fordæmi séu fyrir því. Þá njóti hælisleitendur viðeigandi heilbrigðisþjónustu í Sviss.

Eins og áður segir er Omos í felum hér á landi og hefur því ekki verið vísað úr landi. 

Mótmæli No Borders

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert