„Makrílstofninn er ekki eingöngu okkar“

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB. AFP

„Ég ætla ekki að hrósa Íslendingum og Færeyingum vegna slæmrar framgöngu þeirra þar sem þeir hafa tekið sér einhliða kvóta. Ég er sammála því að það sé óásættanlegt. En á sama tíma vil ég leggja áherslu á að við þurfum að ná samningi og til þess að ná samningi verðum við að viðurkenna það að makrílstofninn hefur ekki aðeins dreift sér víðar en áður heldur færst yfir í lögsögur Íslands og Grænlands.“

Þetta sagði Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, í umræðum um sjávarútvegsmál í Evrópuþinginu síðastliðinn mánudag þar sem meðal annars var rætt um makríldeiluna. Damanaki sagði ennfremur að breytt hegðun makrílsins væri eitthvað sem Evrópusambandið yrði að hafa í huga ef raunverulegur vilji væri að ná samningi. „Ef við segjum bara: Þið hafið engan rétt á að veiða makríl og við ætlum að halda honum öllum fyrir okkur sjálf. Þá er það ekki góður grundvöllur fyrir samninga. Það er að minnsta kosti mín skoðun.“

Sjómenn innan ESB treysta á Norðmenn

Damanaki var með þessu að svara írska Evrópuþingmanninum Pat "the Cope" Gallagher sem sagðist hafa áhyggjur eins og fleiri þingmenn af einörðum ásetningi hennar að ná samningi við Íslendinga og Færeyinga hvað sem það kostaði. Sagði hann sjávarútvegsstjórann hafa sagt á fundi með sjávarútvegsnefnd þingsins í síðustu viku að einhver samningur í þeim efnum væri betri en enginn samningur. Sagðist hann þvert á móti telja að enginn samningur væri betri en slæmur samningur.

Gallagher hrósaði Norðmönnum fyrir harða afstöðu þeirra í makríldeilunni. Sagði hann sjómenn innan Evrópusambandsins nú þurfa að treysta á norsk stjórnvöld til þess að verja hagsmuni þeirra í deilunni. „Það er þyngra en tárum taki að þurfa að lýsa þessu yfir en þetta er einfaldlega staðreynd.“ Gagnrýndi hann Damanaki ennfremur harðlega fyrir að hafa ekki gripið til refsiaðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar og spurði hvort hún væri reiðubúin að grípa til slíkra aðgerða ef ekki næðust samningar. Þá lagði hann ennfremur áherslu á að farin yrði sú leið að Ísland og Færeyjar ættu ekki rétt á varanlegum makrílkvóta heldur aðeins þegar makríllinn færi inn í lögsögur ríkjanna.

Vill semja á meðan ástand stofnsins er gott

Damanaki lagði áherslu á að tækifæri væri til þess að semja um lausn á makríldeilunni í kjölfar þeirrar niðurstöðu Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) síðastliðið haust að makrílstofninn væri miklu stærri en áður var talið. „Ég vil gjarnan ná samningi núna á meðan stofninn er í góðu ásigkomulagi. Við þær aðstæður er betra tækifæri til þess að semja. Ef stofninn væri ekki í góðu ásigkomulagi þýddi það að allir vildu veiða meira sem væri ekki æskilegt.“

Sjávarútvegsstjórinn sagðist hafa rætt þessi mál ítrekað við íslensk stjórnvöld og að í dag færi hún til fundar við Kaj Leo Johannesen, lögmann Færeyja, í þeim tilgangi að reyna að fá Færeyinga til þess að semja um makrílveiðarnar. Það yrði hins vegar ekki auðvelt. „Við ætlum ekki að semja hvað sem það kostar. Það verður samið út frá raunhæfum forsendum sem byggja á því að makrílstofninn er ekki eingöngu okkar.“

Íslendingar fá ekki að veiða í lögsögu ESB

Damanaki sagði að Evrópusambandið og Noregur gætu ekki lengur krafist þess að fá 90% af makrílkvótanum í sinn hlut eins og hingað til. Það væri ekki raunhæfur möguleiki að hennar mati. Ef þeirri kröfu yrði haldið til streitu væri ekki hægt að sannfæra neinn um það að Evrópusambandið og Noregur stunduðu sjálfbærar veiðar. Fyrir vikið yrði að reyna að ná samningi. Ef samningar tækjust ekki yrði að grípa til viðeigandi aðgerða í þágu sjálfbærra veiða. Hún tilgreindi þó ekki nánar hvað hún ætti við.

Sjávarútvegsstjórinn sagðist sammála Gallagher um að leggja ætti áherslu á þá leið að Ísland og Færeyjar ættu ekki rétt á varanlegum makrílkvóta heldur aðeins þegar makríllinn færi inn í lögsögur landanna. Í samræmi við það kæmi ekki til greina að semja um að Íslendingar og Færeyingar fengju að veiða makríl í lögsögu Evrópusambandsins til þess að ná að veiða allan kvótann sinn. „Þeir munu ekki fá aðgang að lögsögunni okkar. Þetta þýðir að ef makrílstofninn er ekki í góðu ásigkomulagi þá fá þeir ekki að veiða sinn kvóta. Þeir fá aðeins að veiða í eigin lögsögum.“

Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert