Forkastanleg aðför að þjóðarmiðli Íslendinga

Rithöfundasamband Íslands harmar „stórfelldan og fordæmalausan“ niðurskurð á starfsemi Ríkis­útvarpsins með fjöldauppsögnum og skertum fjárframlögum. „Í öllum lýðræðisríkjum sem starfrækja ríkisfjölmiðla gegna þeir lykilhlutverki í að viðhalda auðugri menningarumfjöllun og standa vörð um hlutlæga og faglega upplýsingagjöf,“ segir í ályktun sambandsins.

Í yfir áttatíu ár hefur Ríkisútvarpið lagt sérstaka rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Kappkostað hefur verið að hver einasti Íslendingur óháð búsetu hafi sem bestan aðgang að faglegum fréttum og fjölbreyttri afþreyingu auk vandaðrar umfjöllunar um listir og fræði, segir í ályktuninni.

Svo segir:

 „Ríkisútvarpið hefur verið í fararbroddi við að veita víðtæka almenna fræðslu og gera sérstök skil málefnum lands og þjóðar í þeim tilgangi að tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag, sem og umheiminn. Ríkisútvarpið hefur ævinlega reynt að hafa í heiðri grundvallarreglur lýðræðis og mannréttinda og standa vörð um frelsi til orða og skoðana.

Ráðamenn íslenska ríkisins og stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa með óvægnum aðgerðum sínum ráðist að gríðarlega mikilvægri kjarnastarfsemi í menningarumfjöllun þjóðar sem hefur arfleifð og tungumál að vernda. Stórfelldur og harkalegur niðurskurður af því tagi sem íslensk stjórnvöld hafa nú beitt Ríkisútvarpið ógnar bæði lýðræðislegri umræðu og málfrelsi. Tjáningarfrelsinu er hætta búin, íslenskri tungu er hætta búin, listsköpun er hætta búin. Hér er um að ræða aðför að menningu heillar þjóðar sem má ekki líðast.

Við fordæmum þessa forkastanlegu aðför að þjóðarmiðli Íslendinga, Ríkisútvarpi og sjónvarpi, og krefjumst þess að aðgerðirnar verði dregnar til baka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert