Tileinka látnum dreng lagið Hjálp

Hópurinn Regnbogar.
Hópurinn Regnbogar. Skjáskot/Youtube

Hópur átta ungmenna frá Vestmannaeyjum, Regnbogar, frumsýndi í morgun myndband við lagið Hjálp í Höllinni að viðstöddum meira en þrjú hundruð gestum. Lagið er tileinkað minningu drengs sem svipti sig lífi 11 ára gamall í kjölfar eineltis. Með frumsýningunni var átaki gegn einelti hleypt af stað.

Í Höllinni voru 6.-10. bekkur Grunnskóla Vestmannaeyja og starfsfólk en einnig fulltrúar fyrirtækja og félagasamtaka í bænum auk bæjarstarfsmanna. Með átakinu vonast hópurinn til að vekja fólk til umhugsunar um alvarlegar afleiðingar eineltis. Lögð er áhersla á að einelti þrífist víða í samfélaginu, ekki aðeins í grunnskólum. Vandinn sé jafn alvarlegur á vinnumarkaðnum, í stjórnsýslunni, félagsstörfum og á netinu.

Lagið verður sett í sölu á Tónlist.is og rennur allur ágóði óskiptur til Regnbogabarna. Lagið Hjálp er samið af Helga Tórshamar við texta Sævars Helga Geirssonar. Hópurinn Regnbogar er svo samansettur af 13-17 ára ungmennum frá Vestmannaeyjum, það eru þau:  Birta Birgisdóttir, Erna Scheving, Una Þorvaldsdóttir, Helga Sóley Aradóttir, Hjálmar Guðnason, Sara Renee Griffin, Viktoría Rún Þorsteinsdóttir og Svanhildur Eiríksdóttir.

Myndbandið má sjá hér að neðan en það var Viktor Rittmüller sem sá alfarið um gerð þess og var það tekið upp í Island Studios í Vestmannaeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert