Gífurlegur munur milli lyfjaverslana

Verðkönnun Neytendastofu á tíu lausasölulyfjum í 38 lyfjaverslunum á höfuðborgarsvæðinu leiddi í ljós að gífurlegur munur er á milli hæsta og lægsta verðs hverju sinni. Garðsapótek var oftast með lægsta verðið en hæsta verðið á einstökum lyfjum var oftast í Borgarapóteki.

Fulltrúi Neytendastofu athugaði hvort verðmerkingar væru í samræmi við lög og reglur auk þess sem nokkrar vörur voru valdar af handahófi og gerð athugun á samræmingu milli hillu- og kassaverðs.

Í frétt á vef Neytendastofu segir að ástand verðmerkinga lausasölulyfja hafi í flestum tilvikum verið í góðu lagi en hjá Austurbæjar Apóteki, Borgarapóteki og Lyfjaveri Suðurlandsbraut vantaði verðmerkingar á bak við afgreiðsluborð.

Hvað verðmerkingar í verslunarrýminu sjálfu varðar þá snerist dæmið við og vantaði upp á verðmerkingar hjá tíu lyfjaverslunum: Urðarapóteki Vínlandsleið, Lyfjavali Álftamýri, Lyfjavali Mjódd, Lyfjavali Hæðasmára, Árbæjarapóteki, Apótekinu Garðatorgi, Lyfju Lágmúla, Reykjavíkurapóteki Seljavegi, Borgarapóteki Borgartúni og Lyfjaveri Suðurlandsbraut.

Stofnunin gerði einnig verðkönnun á tíu lausasölulyfjum. Garðsapótek var oftast með lægsta verðið eða í sex tilvikum af tíu en hæsta verðið á einstökum lyfjum var oftast í Borgarapóteki eða í sjö tilvikum. Mismunurinn var mestur 565 krónur, á Strepsils hálstöflum.

„Neytendastofa mun halda áfram að fylgja eftir sjálfsögðum rétti landsmanna og veita fyrirtækjum landsins nauðsynlegu aðhaldi sem skilar sér í formi góðrar og réttrar verðmerkingu vara,“ segir í frétt Neytendastofu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert