Byggðu vélmenni úr legókubbum

Tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, FIRST LEGO League (FLL), fór fram í gær í Háskólabíói. Eins og mbl.is greindi frá bar liðið 0% englar frá Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði sigur úr býtum, en samtals tóku 13 lið víðs vegar af landinu þátt í keppninni að þessu sinni eða um 140 grunnskólanemar á aldrinum 10-15 ára. 0% englar unnu sér þar með þátttökurétt á Evrópumóti FIRST LEGO League sem fram fer í lok maí. Þema keppninnar í ár var náttúruöfl og áttu keppendur að forrita vélmenni úr tölvustýrðu LEGO-i til að leysa þrautina.

Fleiri verðlaun voru veitt og þannig fékk liðið El Grilló frá Seyðisfjarðarskóla verðlaun fyrir besta skemmtiatriðið, Krapaflóð frá Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar fyrir bestu liðsheildina, Hnjúkarnir frá Grunnskóla Hornafjarðar fyrir bestu dagbókina, 0% englar fyrir bestu lausn í vélmennakappleik, Bakkabræður frá Breiðholtsskóla fyrir bestu hönnun og forritun vélmennis og Molten frá Naustaskóla á Akureyri  fyrir besta rannsóknaverkefnið.

Liðið Molten hlaut ennfremur gjafabréf í Háskóla unga fólksins í Háskóla Íslands næsta sumar, en verðlaunin voru dregin úr potti með öllum liðum. Allir þátttakendur í keppninni fengu sömuleiðis FLL-medalíu í viðurkenningarskyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert