Mikill kostnaður við leitina

TL - Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar
TL - Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar mbl.is/Árni Sæberg

Leit stendur enn yfir eftir að Landhelgisgæslunni og björgunarbátunum Margréti Guðbrandsdóttur barst neyðarkall frá báti sem var að sökkva. Kostnaður við leitina er þegar orðinn mikill.

Samkvæmt kerfum Landhelgisgæslunnar er engra saknað, án þess þó að hægt sé að draga óyggjandi ályktanir af því. Í ljósi mikillar umfjöllunar um leitina mætti einnig áætla að fólk hefði haft samband og látið vita ef einhver því nákominn væri týndur.

Kostnaður Björgunarfélags Akraness, sem hélt úti tveimur af þeim 10 litlu björgunarbátum sem leituðu á Faxaflóa í gær, hleypur á nokkrum hundruðum þúsunda, bara vegna eldsneytis.

Stærsti eiginlegi kostnaðarliðurinn er kostnaðurinn af þyrlunum fjórum sem leituðu klukkustundum saman í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni kostar hver útseldur tími þyrlna Gæslunnar á bilinu 600 til 700 þúsund krónur. 

Fjórar þyrlur, tvær frá Gæslunni og tvær finnskar björgunarþyrlur, leituðu í að minnsta kosti fimm klukkutíma í gær. Því má gera ráð fyrir að þyrlukostnaður Landhelgisgæslunnar einnar af leitinni hafi verið í kringum sjö milljónir.

Finnsku vélarnar að minnsta kosti tvöfalt dýrari

Varðskip taka ekki þátt í leitinni og ekki þarf að greiða Finnum fyrir aðstoð þeirra, en samkvæmt upplýsingum mbl.is er kostnaður við að halda þeim úti ríflega tvöfaldur samanborið við Super Puma-vélar Gæslunnar. Finnsku vélarnar eru af gerðinni NH-90.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir segir það ekki venjuna að taka saman kostnað við leitir björgunarsveitanna. „Hann er mikill, það er alveg ljóst,“ segir hún þó í samtali við mbl.is

Hins vegar má áætla, út frá þeim kostnaði sem Björgunarfélag Akraness býst við að verða fyrir við að halda úti tveimur bátum, að kostnaður björgunarsveitanna við leitina hlaupi á milljónum.

Formaður Björgunarfélags Akraness áætlaði að kostnaður félagsins við eldsneyti á báta og jeppa væri nokkur hundruð þúsund krónur, en 10 bátar af þeirri gerð sem Björgunarfélag Akraness heldur úti tóku þátt í leitinni, auk fimm stærri báta.

Þá segir Ólöf að tugir jeppa hafi leitað í gær, auk þess sem 190 manns kembdu fjörur launalaust svo klukkustundum skipti. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tól einnig þátt í leitinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert