Ofbeldið tengist aukinni fíkniefnaneyslu

mbl.is/Jim Smart

Leigubílstjórar geta lent í ótrúlegustu aðstæðum þegar þeir opna dyrnar fyrir fólki í annarlegu ástandi. Í gærkvöldi hótaði t.a.m. par leigubílstjóra með notaðri sprautunál og dæmi eru um að ráðist hafi verið á bílstjóra og þeim hótað. Með aukinni fíkniefnaneyslu standa bílstjórar frammi fyrir breyttum veruleika og meiri hörku oft á tíðum.

Vert er að geta þess að parið sem hafði í hótunum við bílstjórann í gærkvöldi var handtekið en atvikið átti sér stað í Hafnarfirði. Bílstjórinn, sem ekur fyrir Hreyfil-Bæjarleiðir, slapp með skrekkinn.

Slík mál rata hins vegar reglulega í fréttir, og þá oftar en ekki um helgar. Sem dæmi má nefna að leigubílstjóri var skallaður í andlitið í lok síðasta mánaðar. Þá féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness í nóvember sl. þar sem karlmaður var dæmdur í sjö mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, þegar hann sló leigubílstjóra í andlitið með bjórflösku.

Mbl.is hafði samband við framkvæmdastjóra Hreyfils og Bifreiðastöðvar Reykjavíkur (BSR) til að ræða ástandið og öryggismál bílstjóra.

Sumir hræddir við að fara niður í miðbæ seinni part nætur

„Sem betur fer gerist þetta mjög sjaldan,“ segir Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri BSR, spurður út í ofbeldi gagnvart leigubílstjórum. Hann tekur aftur á móti fram að „með eiturlyfjum þá er þetta búið að aukast“.

Guðmundur segir að ofbeldisverk tengist neyslu fíkniefna og ástandið í dag sé „allt öðruvísi en var fyrir kannski 10 til 20 árum,“ segir Guðmundur. Fíkniefni hafi öðruvísi áhrif á fólk og hegðun þess en áfengi. Menn séu oft mjög óstöðugir og það þurfi þar af leiðandi lítið til að koma þeim úr jafnvægi.

Þegar ofbeldisverk koma upp eigi þau sér oftast stað eftir klukkan fimm á morgnana um helgar, en þá eru margir í mjög annarlegu ástandi eftir að hafa verið úti á lífinu alla nóttina og neytt áfengis og/eða fíkniefna og skynsemin þar af leiðandi fokin út í veður og vind.

Sæmundur Kristján Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, tekur undir það að framboð og neysla fíkniefna sé vaxandi vandamál sem hafi áhrif á störf leigubílstjóra. „Sumir hverjir eru hreinlega hræddir við að fara niður í miðbæ seinni part nætur,“ segir hann. 

Bílstjórar farnir að setja upp myndavélar

Spurður út í öryggismál segir Sæmundur að það séu sérstakir öryggishnappar í bílunum sem eru beintengdir við tölvukerfi bifreiðastöðvarinnar og er þá hægt að sjá hvar bílarnir eru hverju sinni. Þetta hafi verið í bílunum í mörg ár.

Þá segir hann að einhver dæmi séu um að bílstjórar hafi sett upp myndavélar, sem bæði taki upp það sem eigi sér stað inni í bifreiðunum og það sem gerist fyrir framan þær.

„Það er einn og einn bílstjóri sem hefur verið að setja upp myndavélar,“ segir hann og bætir við að þetta sé mikið öryggisatriði. Sæmundur tekur það hins vegar fram að meirihluti viðskiptavina Hreyfils sé til fyrirmyndar.

Aðspurður segir Guðmundur að í öllum bifreiðunum séu talstöðvar sem séu ávallt opnar. Þannig sé hægt að óska eftir aðstoð komi upp vandamál.  „Það er bara að ýta á takka og þá er það komið,“ segir Guðmundur. Aðspurður segir hann að bílstjórarnir verði að gefa upp staðsetningu sína.

Þá hefur blaðamaður rætt við leigubílstjóra sem hafa, öryggis síns vegna, komið fyrir varnarbúnaði í bílum sínum, t.d. hafnaboltakylfum eða annars konar útbúnaði sem hægt sé að beita í sjálfsvörn verði þeir fyrir árás. 

Hvorki Hreyfill né BSR bjóða bílstjórum sínum upp á áfallahjálp verði þeir fyrir ofbeldi, enda ekki verið talin þörf á slíkri aðstoð. Framkvæmdastjórarnir segja að hvert atvik fyrir sig sé aftur á móti skoðað en ekki er sérstaklega haldið utan um þessi mál, sem heyri til undantekninga.

Leigubílar í miðborg Reykjavíkur.
Leigubílar í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert