Mörg vandamál enn óleyst

Ómögulegt er að fullyrða hvað hefði orðið ef evran hefði …
Ómögulegt er að fullyrða hvað hefði orðið ef evran hefði ekki verið komið á fót á sínum tíma, segja skýrsluhöfundar. Reuters

Ómögulegt er að fullyrða hvað hefði orðið ef evrunni hefði ekki verið komið á fót á sínum tíma. Hins vegar má færa rök fyrir því að sameiginlegur gjaldmiðill hafi lækkað viðskiptakostnað og leitt til betri samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem náðu að nýta sér stærri markað.

Þetta kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og þróunarinnar innan sambandsins sem kynnt var í dag.

Segja skýrsluhöfundar þó að fullyrða megi að almenn lækkun vaxta á svæðinu hafi haft jákvæð áhrif á fjárfestingar og neyslu.

„Áætlað hefur verið að samanlögð áhrif þessara þátta hafi leitt til þess að verg framleiðsla á evrusvæðinu hafi verið um 330 milljörðum evra meiri en ella hefði verið árið 2010, en það jafngildir um 3,6% af heildarframleiðslunni,“ segir í skýrslunni.

Hagþróun ríkjanna ólík

Á móti komi að mörg undirliggjandi vandamál eru enn óleyst. Í skýrslunni segir að höfuðvandinn felist í því hve hagþróun hinna ýmsu landa á evrusvæðinu sé ólík og endurspegli að myntbandalagið er ekki byggt upp á forsendum hagkvæms myntsvæðis.

„Þegar efnahagsástand einstakra ríkja versnar getur aðlögun ekki átt sér stað í gegnum breytingar á gengi. Fjármál ríkisins eru þá eina stjórntækið sem einstök ríki hafa í höndunum þegar til skamms tíma er litið,“ er nefnt í skýrslunni.

Markaður fyrir vinnuafl ekki nógu virkur

Samkeppnishæfni þessara ríkja geti þá og því aðeins batnað að framleiðni vinnuafls aukist - en það geti verið erfitt að auka það til skamms tíma - eða að raunlaun lækki.

Þá segir jafnframt að sameiginlegur innri markaður fyrir vinnuafl sé ekki nógu virkur, þannig að fólk flytur sig ekki milli landa innan svæðisins í nægilega miklum mæli.

Að sama skapi hafi reynst erfitt að samræma ríkisfjármál og hlaupa undir bagga með þeim ríkjum sem höllum fæti standa.

„Afleiðingin er sú að mikils misræmis gætir hvað varðar efnahagsástand innan evrusvæðisins. Hverjar langtímaafleiðingarnar verða er erfitt að segja,“ segja skýrsluhöfundar.

Ekki gjaldmiðilskreppa

Þeir benda einnig á að evrukreppan sé ekki gjaldmiðilskreppa í þeim skilningi að verðgildi gjaldmiðilsins sé stefnt í voða. Hún sé frekar samheiti yfir þau efnahagslegu vandamál sem eru tengd þeirri staðreynd að lönd sem eru á ólíkum stað í hagsveiflunni búi við sameiginlegan gjaldmiðil.

Til að leysa þessi vandamál verði ýmislegt að koma til.

Erfitt hafi reynst að samræma ríkisfjármál evruríkjanna og því má hugsa sér að gripið verði til þess ráðs að taka upp formlegra samráð þar sem einstök ríki gefa frá sér að minnsta kosti einhvern hluta þess ákvörðunarvalds sem þau hafa nú yfir eigin fjármálum.

Þessu gæti fylgt enn frekari samruni, til dæmis á sviði skattamála og hvað varðar millifærslur fjármagns milli landa evrusvæðisins.

Hægt að auka framleiðni

„Þá má hugsa sér að hægt sé að ráðast að rótum vandans með því að auka framleiðni í þeim löndum þar sem hún er hvað lægst á svæðinu og draga þannig úr innra ójafnvæginu,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluhöfundar nefna að fram hafi komið getgátur um að vandinn á evrusvæðinu muni leiða til þess að það brotni upp á þann veg að sum lönd neyðist til að taka upp eigin gjaldmiðla meðan önnur haldi áfram með evruna. 

„Kostnaður við slíka uppstokkun yrði trúlega mikill og óvíst hvaða áhrif slíkar hræringar hefðu á efnahagslíf viðkomandi landa,“ segja skýrsluhöfundar.

Hér má finna skýrsluna í heild sinni.

Ljósmynd/Eric Chan
AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert