„Það er bara ekki mitt mál“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það hefur aldrei staðið til annað en að leggja þessa skýrslu sem við erum að gera hér fyrir þingið. Ég get ekkert gert með það þó einhverjir aðilar úti í bæ, hvort sem þeir heita Samtök atvinnulífsins eða ASÍ, séu að skrifa einhverjar aðrar skýrslur eða láta gera eitthvað slíkt. Það er bara ekki mitt mál.“

Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar, sem spurði ráðherrann hvort ríkisstjórnin ætlaði ekkert að horfa til skýrslu sem unnið væri að um Evrópumálin fyrir Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins við ákvörðun sína um framtíð umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið.

Vísaði Helgi þar til ummæla Gunnars Braga í samtali við fjölmiðla í dag að sú skýrsla væri gerð fyrir stuðningsmenn sambandsins. Spurði hann hvort ekkert mark væri þá takandi á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Evrópumálin á þeim forsendum að hún hefði verið pöntuð af Gunnari sem væri andstæðingur inngöngu í Evrópusambandið. Sagði hann slíkar yfirlýsingar ekki málefnalegar.

„Af hverju ættum við að gera það?“

Gunnar svaraði því ennfremur til að það væri ekki hans að ákveða hvað gert yrði við þá skýrslu sem unnið væri að fyrir Samtök atvinnulífsins og ASÍ. „Þeir hljóta bara að birta sína skýrslu þegar hún er tilbúin. Ég veit ekkert hvenær það verður.“ Sagði hann enga ástæðu til að bíða með að taka skýrslu Hagfræðistofnunar til umræðu þar til sú skýrsla lægi fyrir. „Af hverju ættum við að gera það?“

Utanríkisráðherra sagðist standa við ummæli sín. Þar væri hann að lýsa persónulegri skoðun sinni sem utanríkisráðherra. Rætt hefði verið um það á sínum tíma að skýrslan fyrir Samtök atvinnulífsins og ASÍ væri fyrir samtök sem væru hlynnt umsókninni um inngöngu í Evrópusambandið. Spurði hann ennfremur Helga hvort hann væri að vega að trúverðugleika Hagfræðistofnunar. Hann vissi ekki betur en að fyrri ríkisstjórn hefði leitað til stofnunarinnar með ýmis mál. Því svaraði Helgi hins vegar ekki.

Helgi Hjörvar alþingismaður.
Helgi Hjörvar alþingismaður. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert