Gunnar Bragi bað Steingrím afsökunar

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér þykir miður ef ég hef vegið nærri þingmanninum Steingrími J. Sigfússyni og bið hann afsökunar á því,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á Alþingi í kvöld. Gerðist það eftir að allmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess að hann yrði víttur fyrir orð sín. Af því varð ekki.

Þingfundur hélt áfram eftir að honum var frestað skömmu fyrir klukkan tíu í kvöld. Var það eftir að Gunnar Bragi kallaði fram úr sæti sínu: „Ég hef þó ekki logið að þinginu eins og þú.“ Þá var Steingrímur J. í ræðustól og krafðist þess að Gunnar Bragi bæðist afsökunar á því sem kemur fram í greinargerð þingsályktunartillögu hans.

Í kjölfarið fóru þingmenn stjórnarandstöðunnar fram á að Gunnar Bragi yrði víttur fyrir orð sín. „Þessi ummæli sýna svart á hvítu þá tilfinningu sem býr að baki þeirri málsmeðferð sem við erum að verða vitni að. Það er borið fram, þetta mál, af reiði og hefnd,“ sagði Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar. „Það eru frumhvatirnar sem við erum að verða vitni að þessa daganna.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði að með orðum sínum hefði utanríkisráðherra vakið efasemdir um það hvort hann sé yfirleitt húsum hæfur. „Það er ekki hægt að bjóða þingheim upp á hvað sem er.“

Þingmenn stjórnarandstöðunnar fóru einnig fram á að þingfundi yrði slitið og haldið áfram á morgun eftir góðan nætursvefn. Við því var ekki orðið.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að í kvöld hefðu verið sett ný viðmið og ekki væri að sjá hvers vegna þingmenn ættu að fylgja þeim þingsköpum sem fyrir þá eru lögð ef utanríkisráðherra yrði ekki víttur. „Þá eru allar reglur farnar út í veður og vind.“

Eftir að Gunnar Bragi bað Steingrím afsökunar kom sá síðarnefndi upp í ræðustól og sagðist kjósa að líta svo á að ráðherra hafi afturkallað orð sín. „Friðarins vegna tek ég þau gild.“ Hann lagði engu að síður til að þingfundi yrði slitið.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist hins vegar enga ástæðu sjá til að fresta þingfundi, það væri fyrst að verða skemmtilegt. Hann sagðist eiga erfitt með að skilja það að fresta þurfi þingfundi sökum þess að þingmenn séu í uppnámi. Varla færu margir þingfundir fram ef það væri eitt og sér nægilegt.

Þá bað Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, þingmenn um að hugsa til baka og þá myndu þeir eflaust finna töluvert harkalegri orðaskipti í þingsal. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert