Samþykkir ekki tillöguna óbreytta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sagði á Alþingi í kvöld að hún gæti ekki stutt þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, um að draga til baka umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandsins óbreytta.

Þar svaraði Ragnheiður fyrirspurn frá Kristjáni L. Möller, þingmanni Samfylkingarinnar, sem spurði hvort hún væri sátt við það sem fyrrverandi varaforseti Alþingis að í greinargerð með þingsályktunartillögunni væri gert að því skóna að einhverjir þingmenn hefðu greitt atkvæði gegn samvisku sinni þegar þeir samþykktu umsókn um inngöngu í Evrópusambandið sumarið 2009 og hvort hún gæti samþykkt tillöguna óbreytta. Ragnheiður rifjaði upp að hún hefði verið ein af þeim þingmönnum sem hafi stutt umsóknina á sínum tíma. 

Ragnheiður sagði í svari við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur, þingflokksformanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, að hún hefði sjálf gert utanríkisráðherra grein fyrir því að hún vildi að umrætt orðalag yrði tekið úr greinagerðinni. Sagðist hún ennfremur vera hlynnt því að taka lengri tíma í að fara yfir málið. Þannig teldi hún rétt að bíða eftir skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem stofnunin væri að vinna fyrir aðila vinnumarkaðarins um Evrópumálin.

Þá sagðist Ragnheiður aðspurð ekki hlynnt því að kosningu um umdeild mál í landsmálapólitíkinni eins og Evrópusambandið yrði blandað saman við sveitarstjórnarkosningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert