Lýðræðið að engu gert

Róbert Marshall.
Róbert Marshall. Ernir Eyjólfsson

„Hversu mörgum undanþágum og sérlausnum náði fyrrverandi ríkisstjórn fram á þeim fjórum árum sem hún hafði til þess tækifæri?“ spurði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í umræðum um aðildarviðræður við Evrópusambandið á Alþingi í dag og sagði tímann hafa verið illa nýttan af þeim sem virkilega vildu ganga í Evrópusambandið.

Þá sagði hún stjórnarandstöðuna hafa kallað eftir því að ríkisstjórnin sýndi spilin varðandi áframhald viðræðna og það væri því undarlegt að kvarta undan asagangi þegar það sé síðan gert.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðust margir undrandi á flýtimeðferðinni sem málið væri að fá á Alþingi. „Ég skil ekki hvers vegna það er farið með þessum asagangi í það að ætla slíta viðræðum án nokkurrar samræðu við kjósendur. Það er vegna þess sem fólk mótmælir hér fyrir utan. Það skilur ekki hvað er í gangi hér inni á Alþingi,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata.

Fordæmalaus viðsnúningur

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði viðsnúning ríkisstjórnarinnar vera fordæmalausan. „Ég man ekki eftir að hafa heyrt jafn haldlitlar skýringar á slíkri umpólun sem hér hefur orðið. Það er lofsvert að þingmenn stjórnarflokka séu komnir að niðurstöðu, en hvers vegna er þjóðinni ekki leyft að gera slíkt hið sama?“ sagði hann.

„Lýðræðið byggir á trausti. Okkur er treyst til þess að fylgja eftir stefnu. Nú ganga ráðherrar í berhögg við þá stefnu sem þeir boðuðu og það má því segja að þeir hafi keypt sig til valda á fölskum forsendum. Hér er fulltrúalýðræðið að engu gert,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar.

Þá vakti Illugi Gunnarsson athygli á viðtali sem Bjarni Benediktsson fór í í ágúst síðastliðnum á Stöð 2 þar sem hann sagði að ef hann kæmist til valda myndi hann slíta viðræðum við ESB og benti jafnframt á að annar stjórnarflokkurinn í síðustu ríkisstjórn hafi ekki ætlað að sækja um ESB en svo hafi þó verið gert. Benti hann einnig á að öll rök bentu til þess að ekki myndu fást neinar sérúrlausnir fyrir Ísland. Mat stjórnvalda væri einfaldlega að hagsmunir Íslands væru best varðir utan ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert