Strandaðar viðræður vonbrigði

„Það eru mikil vonbrigði að samkomulag náðist ekki. Þetta virtist vera besti möguleikinn í talsverðan tíma til þess að landa samkomulagi og því lengur sem þetta ástand varir því meiri óvissu búa sjómenn okkar við. Öll ríkin sem aðild eiga að þessum viðræðum bera ábyrgð gagnvart sjómönnum okkar og að leysa úr þessum hnút eins fljótt og mögulegt er.“

Þetta er haft eftir Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands, á fréttavefnum Fishnewseu.com í dag en eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi slitnaði upp úr viðræðum um lausn makríldeilunnar á fundi í Edinburg höfuðborg Skotlands í gær þar sem reyna átti til þrautar að ná samkomulagi um makrílveiðar þessa árs. Ekki verða gerðar frekari tilraunir til þess að semja um þær og er næsta skref að aðilar deilunnar, Ísland, Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið, gefi hver um sig einhliða út kvóta innan sinna lögsagna. Norðmenn og Evrópusambandið ætla þó fyrst reyna að semja tvíhliða sín á milli.

Fram kemur á vefsíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í dag að sambandið hefði lagt fram tilboð á fundinum í krafti formennsku sambandsins á honum sem Íslendingar og Færeyingar hafi samþykkt. Hins vegar hafi því verið hafnað af Norðmönnum. Framkvæmdastjórnin telji að um kjöraðstæður hafi verið að ræða til þess að ná samkomulagi og því séu það mikil vonbrigði að að tækifæri hafi ekki verið nýtt.

Evrópusambandið hefji næst tvíhliða viðræður við Norðmenn um makrílinn sem hefjist í dag þar sem lögð verði áhersla á sjálfbærar veiðar í samræmi við vísindalega ráðgjöf. Hvetur sambandið Íslendinga og Færeyinga til þess að sýna að sama skapi ábyrgð við ákvörðun einhliða kvóta innan sinna lögsagna svo tryggja megi áframhaldandi sjálfbærni makrílstofnsins.

Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands.
Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert