Allir vilja fá að kjósa

Samstöðufundur á Austurvelli laugardaginn 1. mars.
Samstöðufundur á Austurvelli laugardaginn 1. mars. mbl.is/Ómar

„Margir eru óákveðnir og vilja fá að sjá samning til að geta tekið afstöðu. Sumir eru Evrópusambandssinnar, aðrir eru ekkert spenntir fyrir því en það vilja allir fá að kjósa,“ segir Sif Traustadóttir um hópinn sem stendur að samstöðufundi á Austurvelli kl. 15 á morgun. Ræðumenn á fundinum verða Ólafur Stefánsson, handboltaþjálfari og fyrrverandi landsliðsmaður, Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur, og Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu.

Hópurinn skipulagði samskonar samstöðufund síðasta laugardag og mættu þá á bilinu 7-8.000 manns. Krafa samstöðufundanna er að hætt verði við að draga til baka aðildarumsóknina að ESB og að kosið verði um áframhald aðildarviðræðna eins og var lofað í aðdraganda kosninganna að sögn Sifjar. Hópurinn er algerlega sprottinn úr grasrótinni og samanstendur af fólki með mismunandi skoðanir.

„Við þekktumst ekkert fyrir og tengjumst engum sérstökum hagsmunahópum. Þetta er hópur einstaklinga sem kynntust í gegnum Facebook þegar var byrjað að mótmæla í síðustu viku. Það var hópur af fólki sem byrjaði að spjalla saman þar og spáði í framhaldið,“ segir hún en einstaklingarnir í hópnum lögðu sjálfir út fyrir kostnaði við fundinn síðasta laugardag. Þeim tókst þó að safna upp í hann með samskotum.

„Þetta er stórt hagsmunamál fyrir Ísland og sjálfsagt að Íslendingar fái sjálfir að kjósa um það, líka svo það sé hægt að hætta að rífast um það. Það verður enginn friður um það fyrr en það er búið að útkljá það,“ segir Sif.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert