Gera stutt hlé á samningafundi

Samningamenn framhaldsskólakennara ráða ráðum sínum.
Samningamenn framhaldsskólakennara ráða ráðum sínum. Ljósmynd/KÍ

Hlé hefur verið gert á samningafundi kennara og ríkisins, en samningamenn hittast aftur kl. 18:30 í kvöld. Samninganefnd kennara kemur saman til vinnu- og samráðsfundar kl. 17 í dag þar sem farið verður yfir stöðuna.

Samningamenn vilja ekkert segja um gang viðræðna, en reiknað er með að fundað verði fram eftir kvöldi og aftur á morgun.

Verkfall hefst í framhaldsskólum á mánudagsmorgun náist ekki samningar fyrir þann tíma.

Á heimasíðu Kennarasambandsins segir að kröfur Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum snúist um leiðréttingar á launum kennara, náms- og starfsráðgjafa og stjórnenda í framhaldsskólum, og lagfæringar á rekstri skólanna svo þeir valdi hlutverkum sínum.

Einnig er rætt um skólastarfsbreytingar í samræmi við framhaldsskólalögin frá 2008 en framkvæmd þeirra hefur frestast að hluta vegna efnahagsaðstæðna. Lögin eiga að taka fullt gildi haustið 2015. Samningafundir um helgina munu leiða í ljós hvort kjarasamningar takast án átaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert