Samningum settar þröngar skorður

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir kjarasamninga á hinum almenna markaði setja hinu opinbera þröngar skorður í kjaradeilu ríkisins við félög kennara og stjórnenda í framhaldsskólum. Kerfisbreytingar, á borð við þá að nám til stúdentsprófs verði að jafnaði þrjú ár í stað núverandi fyrirkomulags, sé ein leið til að hækka laun framhaldsskólakennara umfram laun annarra stétta.

„Það liggur fyrir að ekki er hægt að semja um launahækkanir umfram það sem samið var um á almenna markaðnum nema til komi breytingar sem gera það að verkum að hægt sé að réttlæta launhækkun á grundvelli slíkra breytinga,“ segir Illugi.

Segir heilmikið svigrúm til að bæta framhaldsskólakerfið

„Ég hef alla tíð talað skýrt fyrir því, síðan ég tók við embætti, að það sé heilmikið svigrúm til að bæta framhaldsskólakerfið. Ég hef bent á að við séum ein þjóða innan OECD sem búum við það fyrirkomulag að vera með 14 ára undirbúningstíma fyrir okkar háskólanemendur á meðan allir aðrir eru með 12-13 ár. Það eru tækifæri til að breyta skólakerfinu okkar þannig að við nýtum tíma nemendanna betur. Það gerir líka það að verkum að það getur orðið betri nýting fjármuna. Ég vil gjarnan að það svigrúm verði meðal annars notað til að bæta kjör kennara,“ segir Illugi.

Segir að bragarbótar sé þörf

Hann segir þó að meginatriðið sé að bæta skólakerfið hér á landi. „Það er margt sem bendir til þess að við þurfum að gera bragarbót á kerfinu þannig að við getum tryggt að okkar ungmenni fái sömu tækifæri til að nýta tíma sinn og mennta sig með sama hætti og gengur og gerist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Hér er líka um mikið hagsmunamál að ræða fyrir þá sem ganga menntaveginn, ég bendi t.d. á nýsamþykkta menntastefnu BHM en þar er sérstaklega lagt til að stytta skuli undirbúningsnám að háskólanáminu.“

Mikilvægt að samstarf náist við kennara

En hvert verður framhald mála, úr því að verkfall er skollið á? „Ég vona, rétt eins og allir aðrir, að það takist að ná samningum sem fyrst. Það er mikilvægt að samstarf takist við kennara um umbætur í skólakerfinu, því þær eru forsenda launahækkana umfram það sem öðrum stendur til boða. Takist það aftur á móti ekki blasir það við að svigrúm ríkisins til launahækkana er mjög þröngt,“ segir Illugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert