Ríkisútvarpið í of stórum fötum

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri.
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri. mbl.is/Þórður

„Þessi staða er verri en menn vonuðust til. Það er alveg ljóst að það kom á óvart hver hún væri. Ástæðurnar eru nokkrar. Aðallega er það auðvitað mikill niðurskurður á opinberu framlagi á síðustu mánuðum síðasta árs sem hefur mest að segja. Síðan blasir meðal annars við að hagræðingaraðgerðir sem farið var í nóvember hafa skilað sér hægar og verr en ráð var fyrir gert. Það jákvæða í stöðunni er hins vegar að framtíðarhorfur eru góðar.“

Þetta segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri í samtali við mbl.is spurður út í endurskoðaða og uppfærða rekstraráætlun Ríkisútvarpsins sem kynnt var á fundi stjórnar í gær þar sem fram kemur að tap fyrstu sex mánuði rekstrarársins séu rúmar 300 milljónir. Tilkynnt var í morgun um umfangsmiklar skipulagsbreytingar hjá Ríkisútvarpinu. „Þegar okkur hefur tekist að innleiða þessar breytingar að fullu þá verður komið jafnvægi á reksturinn. Samhliða ætlum við að horfa á starfsemina heildstætt og stokka hana upp því það má segja að Ríkisútvarpið í dag sé í of stórum fötum.

Starfsemin hefur dregist mikið saman á liðnum árum og það hefur verið tálgað utan af henni. En nú er kominn tími til þess að horfa heildstætt á þetta, stokka spilin upp á nýtt til þess að einfalda ferla og tryggja að fjármunir nýtist betur og beint í dagskrána, meira fari í innihald og minna í umbúðir, því Ríkisútvarpið á auðvitað fyrst og fremst að vera stofnun sem skapar mikið og gott innihald,“ segir hann.

Hægt að gera gott efni úr því sem Ríkisútvarpið hefur

Magnús víkur í þeim efnum að húsnæðismálum Ríkisútvarpsins. Fara þurfi yfir þau mál og hvernig megi koma þeim í hagkvæmari farveg. Húsnæðið sé of stórt og áhvílandi lán íþyngjandi. „Það er augljóst að mínu mati að eitthvað þurfi að gera í þeim efnum. Leiðin er ekki alveg ljós en við viljum að Ríkisútvarpið snúist um innihaldið en í dag er starfsemin of háð þessu húsi og háum lánum af því.“

Spurður um skipulagsbreytingarnar, sem meðal annars fela í sér að öllum framkvæmdastjórum Ríkisútvarpsins verði sagt upp og ráðið í nýja framkvæmdastjórn, og fyrirhugaða hagræðingu af þeim segir Magnús: „Þessar breytingar eru til einföldunar og hagræðingar en fyrst og fremst er verið að breyta áherslum. Það er verið að leggja aukna áherslu á dagskrá. Dagskrársviðin fá aukið vægi í nýju skipulagi, stoðsvið eru einfölduð og þeim fækkað.“

Spurður hvort þörf sé á meira framlagi frá ríkinu til Ríkisútvarpsins segir hann: „Það er alveg ljóst að það hefur verið gengið harkalega fram gegn Ríkisútvarpinu og of langt í niðurskurði. Það er algerlega ljóst að ekki má ganga lengra. Slíkt myndi lama starfsemina. En ég tel að við getum gert heilmikið og gott dagskrárefni úr því sem við höfum í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert