Segir ásakanir fangans rangar

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Fangi á Litla-Hrauni hefur lagt fram kæru á hendur fjórum fangavörðum vegna meintrar líkamsárásar á miðvikudagskvöld. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir það ekki rétt að fangaverðirnir hafi gengið í skrokk á fanganum. Greint var frá málinu í Fréttablaðinu í morgun.

„Það er takmarkað sem ég má segja um einstök mál sem koma upp í fangelsinu, en miðað við þær skýrslur sem ég hef lesið og þá sem ég hef rætt við er sú atburðarás sem fanginn setur fram ekki rétt. Það er ekki rétt að fangaverðir hafi náð í fangann og gengið í skrokk á honum, enda væri það hrikalegt og tekið yrði á því með festu,“ segir Páll í samtali við mbl.is

Hann segir það hins vegar staðreynd að fangaverðir þurfi oft á tíðum að eiga við ofbeldisfulla einstaklinga í fíkniefnaneyslu sem ekki fara eftir þeim reglum sem gilda í fangelsinu. „Þá hafa fangaverðir valdbeitingarheimildir svipað lögreglu, en það er alltaf síðasta úrræðið sem gripið er til. Þetta er hins vegar alltaf mjög vandmeðfarið mat.“

Páll segir fangaverðina alltaf vera bundna af meðalhófi, valdbeitingin þurfi að vera algjörlega nauðsynleg og skrá þurfi ítarlega skýrslu um málið. 

„Lögreglu berast kærur út af ýmsum hlutum. Sumar eru réttar og þarf að rannsaka en aðrar eru það ekki. Ég er í þeirri stöðu núna að vera búinn að skoða málið eins ítarlega og ég get og nú er það í höndum lögreglu að ákveða hvert framhald þess verður,“ segir Páll.

Hann segir ekki standa til að víkja fangavörðunum tímabundið frá störfum á meðan rannsókn málsins stendur yfir. „Miðað við þær upplýsingar sem ég hef núna er það ekki nauðsynlegt en það þarf bara að sjá hverju fram vindur.“

Frétt mbl.is: Rannsaka meinta líkamsárás

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert