Hefur kært úrskurð í máli Hannesar

Hannes Smárason.
Hannes Smárason. mbl.is/Brynjar Gauti

Sérstakur saksóknari hefur kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Hannesar Smárasonar til Hæstaréttar. Á miðvikudag vísaði héraðsdómur máli embættisins, sem ákærði Hannes fyrir fjárdrátt, frá á þeim grundvelli að þeirri háttsemi sem honum væri gefin að sök hefði ekki verið lýst með fullnægjandi hætti. 

„Við teljum að þessi niðurstaða fáist ekki staðist og höfum ákveðið að fá Hæstarétt í að kveða á um það,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við mbl.is.

Hannes var ákærður fyrir fjárdrátt í fyrra með því að hafa 25. apríl 2005 sem stjórnarformaður FL Group dregið sér af fjármunum FL Group 2,875 milljarða króna sem hann ráðstafaði til Fons.

Ólafur segir að kæran sé komin inn í Héraðsdóm Reykjavíkur. „Það sem gerist nú er að héraðsdómur tekur þessa kæru og útbýr gögnin fyrir Hæstarétt og sendir málið til Hæstaréttar innan nokkurra daga.“

Aðspurður segist hann eiga von á því að málið verði tekið fyrir hjá Hæstarétti innan skamms tíma en um mjög afmarkað atriði er að ræða. Hann vonast til að niðurstaða liggi fyrir innan tveggja vikna, þ.e. frá því að gögnin fara frá héraðsdómi til Hæstaréttar.

Spurður nánar út í frávísunina segir Ólafur að embættið sé á öndverðum meiði við niðurstöðu dómara.

Staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms hefur ákæruvaldið möguleika á því að bæta úr og ákæra að nýju að sögn Ólafs. „Við tökum hvert skref fyrir sig í þessu og reynum að vanda málsmeðferðina eins og við getum,“ segir Ólafur.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert