Komst inn í Princeton og Harvard

Guðrún Valdís Jónsdóttir með bréfin frá Princeton og Harvard.
Guðrún Valdís Jónsdóttir með bréfin frá Princeton og Harvard. mbl.is

„Ég fékk fyrst bréfið frá Princeton og varð hrikalega glöð náttúrlega. En á meðan ég var að lesa það kom tölvupóstur frá Harvard,“ segir Guðrún Valdís Jónsdóttir í samtali við mbl.is en hún fékk í dag bréf bæði frá Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og Harvard-háskóla þar sem henni er boðin skólavist næsta vetur. Hún segist vitanlega ekki hafa verið minna glöð yfir því að fá bréfið frá Harvard en það þýði auðvitað að hún þurfi að velja á milli tveggja frábærra kosta. Til þess hafi hún mánuð.

Samtals sótti 26.641 um skólavist í Princeton fyrir næsta skólaár en aðeins 7,28% umsókna voru hins vegar samþykkt. Enn fleiri, eða 34.295 manns, sóttu um skólavist í Harvard en umsóknir 5,9% voru samþykktar.

Ferlið hófst með því að Guðrún hafði samband við fótboltaþjálfarana við Princeton og Harvard en hún hefur spilað fótbolta með ÍA sem markmaður og einnig leikið með 17 ára og 19 ára landsliðunum. Upphaflega hafi hún haft samband við fleiri háskóla en á endanum haft mestan áhuga á þessum tveimur skólum og þeir á henni. „Síðan fór þetta af stað. Þeir vildu fá mig út og sjá mig spila og fá myndbönd og svona. Í kjölfarið fór ég út og gisti á heimavistinni hjá stelpu í liðinu og prófaði að fara í tíma.“ 

Guðrún hafi í kjölfarið ákveðið að sækja um í þessum tveimur háskólum. Eftir sem áður hafi hún þurft að uppfylla allar kröfur eins og aðrir umsækjendur þótt þjálfararnir hafi getað gefið henni meðmæli. „Ég þurfti að taka fjögur próf og standast þau öll. Eitt enskupróf fyrir alla útlendinga og síðan próf í stærðfræði, raungreinum, lesskilningi, vísindum og fleiru. Mér gekk vel bæði í grunnskóla og framhaldsskóla og það hjálpaði án efa. Þannig að þetta er svona blanda af góðum námsárangri og fótboltanum,“ segir Guðrún en hún var dúx frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Ferlið frá því að hún tók fyrsta prófið tók eitt og hálft ár að sögn Guðrúnar. Spurð hvort hún hafi ákveðið hvað hún ætli að læra segist hún byrja í BS-námi í sameindalíffræði en hún er að klára fyrsta árið í því fagi við Háskóla Íslands og haldi náminu því áfram. „Ég ætla allavega að byrja í því. Grunnnámið tekur fjögur ár og síðan veit ég ekkert hvað ég geri í framhaldi af því. Það er bara allt opið. Seinni tíma vandamál eins og sagt er.“ Næsta verkefni sé hins vegar að ákveða hvorn háskólann hún fari í og hvorum hún hafni.

Guðrún Valdís fyrir utan Nassau Hall í Princeton.
Guðrún Valdís fyrir utan Nassau Hall í Princeton. mbl.is
Guðrún Valdís við styttuna af John Harvard í Harvard-háskóla.
Guðrún Valdís við styttuna af John Harvard í Harvard-háskóla. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert