Erlendir sérfræðingar dómkvaddir

Börkur Birgisson leiddur fyrir dómara í Hæstarétti.
Börkur Birgisson leiddur fyrir dómara í Hæstarétti. mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands hefur fallist á kröfu verjenda Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar um að dómkveða tvö erlenda sérfræðinga til að fara yfir mat réttarmeinafræðings á krufningarskýrslu í máli ákæruvaldsins á hendur þeim. Úrskurðurinn verður þó mögulega kærður til Hæstaréttar.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í dag en Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa í sameiningu veist með ofbeldi á fanga á Litla-Hrauni og veitt honum högg á kvið með þeim afleiðingum að rof kom á milta og á bláæð frá miltanu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völdum innvortis blæðinga.

Héraðsdómur féllst í lok nóvember sl. á kröfu verjenda um að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að svara spurningum vegna matsgerðar réttarmeinafræðings og tveggja sálfræðinga í sálfræði sem dómkvaddir voru til að greina atferli fanga á upptökum úr öryggismyndavélum. Ágreiningur var um matsmennina og vildi Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, að dómkveðnir yrðu Íslendingar.

Við fyrirtökuna í dag var kveðinn upp úrskurður þess efnis að dómkvaddir verði tveir Þjóðverjar sem verjendur gerðu tillögu um. Þeir munu fara yfir skýrslu réttarmeinafræðings í málinu og skila yfirmati.

Þá var ákveðið að dómkveða þrjá menn til viðbótar, Norðmann, Svía og Breta, til að fara yfir atferlisskýrslu Gísla Guðjónssonar og Jóns Friðriks Sigurðssonar, en þeir rýndu í atferli og samskipti fanga á upptökum úr öryggismyndavélum. Ekki var ágreiningur um þá þrjá sérfræðinga.

Ákæruvaldið mun á næstu dögum taka afstöðu til þess hvort úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar. Þá liggur fyrir að þýða þarf töluvert magn gagna yfir á ensku en ekki er ljóst hversu mikið magn það er. Alls óvíst er því með framvindu málsins og hvenær hægt verður að flytja það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert