Milljarður millifærður fyrir mistök

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson Þórður Arnar Þórðarson

Innan Baugs voru starfsmenn mjög óánægðir með sambandið milli Glitnis banka og Baugs eftir að Baugur varð óbeinn eigandi að Glitni og töldu samskiptin við aðrar bankastofnanir betri. Þetta sagði Jón Ásgeir Jóhannesson við aðalmeðferð Aurum-málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun. Jón Ásgeir er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við sex milljarða lánveitingu Glitnis banka til eignarhaldsfélagsins FS 38 í júlí 2008. Einn milljarður upphæðarinnar rann til Jóns Ásgeirs.

Framburður Jóns Ásgeirs var um margt ítarlegri en hinna sakborninganna, Lárusar Welding, fv. bankastjóra Glitnis, Magnúsar Arnars Arngrímssonar, fv. framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, og Bjarna Jóhannessonar, fv. viðskiptastjóra sama banka, en þeir gáfu skýrslu á fimmtudag. Meira að segja sérstakur saksóknari viðurkenndi að Jón Ásgeir hefði upplýst um atriði í málinu sem hann átti ekki von á. Þetta var í fyrsta skipti sem Jón Ásgeir tjáði sig um málið en hann neitaði að gefa skýrslu hjá sérstökum sakóknara. Sagðist hann hafa lært af biturri reynslu Baugsmála og það gerði sér ekkert gagn að vera samvinnuþýður við rannsókn mála. Þær rannsóknir sérstaks saksóknara og áður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hefðu það eitt að markmiði að reyna koma á hann sekt. Ekkert væri gætt að þeim atriðum sem horfðu til sýknu.

En þótt framburður Jóns Ásgeirs hafi verið upplýsandi fyrir sérstakan saksóknara er ekki þar með sagt að hann hafi játað á sig sök í málinu. Hann sagði akkúrat ekkert í málinu refsivert. Það sem sérstakur saksóknari yfirheyrði menn um væri eðlilegt ferli í banka þegar óskað væri eftir lánafyrirgreiðslu. Það að hann hefði sjálfur verið í samskiptum við forstjóra bankans og aðra starfsmenn væri ekki óeðlilegt. Menn hefðu verið að kasta á milli sín hugmyndum, sem ekki væri glæpur, og eðlilegt væri að ýta á eftir málum sínum innan bankakerfisins. „Ég held að ég hafi ekki talað meira við Lárus en stjórnendur annarra banka,“ sagði Jón Ásgeir og einnig að bankinn hefði unnið sína vinnu faglega og málið verið klárað með eðlilegum hætti. „Menn voru að tala sig saman um hlut og velta fyrir sér alls konar vinklum á því hvernig hægt væri að ná niðurstöðu. Þannig gerast kaupin á eyrinni. Viðskipti eru ekki þannig að einn segir öðrum hvað hann eigi að gera.“

Fékk milljarð frá Pálma

Jóni Ásgeiri er gefið að sök að hafa í krafti áhrifa sinna í Glitni banka beitt forstjóra og framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs fortölum og þrýstingi þannig að þeir samþykktu lánið, þrátt fyrir ófullnægjandi tryggingar. Jón Ásgeir sagði þetta af og frá og spurði á móti hvernig það væri gott fyrir hann sem óbeinan eiganda að bankanum að valda honum tjóni. Það rétta væri að þarna skiptu um hendur verðmæti og að hann hefði sem stjórnarformaður Baugs sem átti stóran hluta í Aurum Holding fylgt málinu eftir, en lánið sem Glitnir veitti FS38 var notað til að kaupa hluti Fons í Aurum Holding.

Eins og áður segir rann einn milljarður króna til Jóns Ásgeirs. Hann sagði það ekkert leyndarmál. Með lánveitingunni hefði verið tryggt að Pálmi Haraldsson fengi til sín fé og hann stóð í loforði við eignarhaldsfélag sitt, Þú blásól, vegna skuldabréfaútgáfu. „En ef þetta hefði ekki gengið upp þá hefði verið staðið við það mál. Fons var ekki eignalítið félag á þessum tíma og í ágúst seldi það eignir og átti laust fé upp á á sjöunda milljarð.“ Hann sagði að milljarðurinn hefði fyrir mistök verið greiddur inn á hans persónulega reikning en ekki inn á reikning eignarhaldsfélagsins Þú blásól en peningunum hefði verið ráðstafað í þágu eignarhaldsfélagsins Þú blásól.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert