Dragi uppsögnina til baka

Setið var í hverju sæti á fundinum.
Setið var í hverju sæti á fundinum. mbl.is/Ómar

Umtalsverður meirihluti fundarmanna á fundi Félags eldri borgara, sem haldinn var nú í kvöld, samþykkti að skora á stjórn félagsins að draga uppsögn framkvæmdastjórans, Sigurðar Einarssonar, til baka.

Þá var lögð fram vantrauststillaga á stjórn félagsins en fundarstjóri ákvað að bera hana ekki undir atkvæði félagsmanna að þessu sinni.

Í samtali við mbl.is segist Sigurður ekki geta starfað með stjórninni eftir allt sem á undan hefur gengið. Óvíst sé hvernig stjórnin bregðist við þeirri stöðu sem nú er komin upp. „Þetta er í rauninni spurning um stjórnina eða mig,“ segir hann.

Fjölmennur hitafundur

Fundurinn í dag var afar fjölmennur en talið er að allt að 140 manns hafi setið fundinn. Telur Sigurður þetta vera einn fjölmennasti fundur félagsins frá því að hann varð framkvæmdastjóri fyrir rúmum sjö árum, eða árið 2007.

Til samanburðar sátu um sextíu manns síðasta aðalfund félagsins.

Ástæðan fyrir því að boðað var til fundarins var krafa félagsmanna um að stjórn félagsins útskýrði og færði rök fyrir þeirri ákvörðun sinni að segja Sigurði upp störfum frá og með 1. mars síðastliðnum.

Í lögum félagsins segir að stjórninni sé skylt að halda félagsfund fari þrjátíu félagsmenn fram á það. Í framhaldi af uppsögn Sigurðar skrifuðu hátt í 300 félagsmenn nöfn sín undir bréf þar sem farið var fram á slíkur fundur yrði haldinn til að útskýra uppsögnina. Krafan um félagsfund var afhent stjórn félagsins fyrir fund hennar 11. mars og var þá farið fram á að fundur yrði haldinn þar sem „ástæður og rök stjórnar fyrir uppsögninni væru skýrð“. 

Fyrir viku birtist síðan auglýsing þar sem tilkynnt var um félagsfund til að „kynna áherslubreytingar í rekstri og fjárhagsstöðu“ félagsins. 

Dagskráin breyttist

Sigurður lagði fyrr í dag fram dagskrártillögu um breytta dagskrá fundarins. Samkvæmt henni yrði til umræðu krafa á þriðja hundrað félagsmanna um félagsfund og uppsögn Sigurðar og þá yrðu jafnframt bornar undir atkvæði tillögur um vantraust á stjórn félagsins sem og um afturköllun uppsagnar framkvæmdastjórans.

Meirihluti fundarmanna samþykkti þessa dagskrártillögu.

Sigurður segir að fundarstjóri hafi úrskurðað að „umtalsverður meirihluti“ hafi samþykkt tillöguna um að skora á stjórnina að draga uppsögnina til baka. Kosið var með handauppréttingu.

„Þá var borin upp tillaga um vantraust á stjórn félagsins. Fundarstjóri ákvað, þar sem tillagan var ekki á fundarblaði og áleit hann sem svo að enginn fundarmanna hefði getað vitað að þessi vantrauststillaga yrði borin upp, að leggja hana ekki fram. Hann bar hana því ekki undir atkvæði,“ segir Sigurður.

Vantrauststillagan hafi hins vegar verið skeggrædd á fundinum.

Óvíst með framhaldið

Aðspurður um framhaldið segir Sigurður að nú þurfi hann og stuðningsmenn hans að ráða ráðum sínum og fara yfir málin. „Við reiknum með því að reyna að boða til annars fundar, en það er auðvitað erfitt að fara fram á við stjórnina að hún boði til fundar þar sem greidd verði atkvæði um vantraust á sjálfa sig.

Þannig að við eigum eftir að finna leið til þess að boða til annars fundar,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Fjölmennt á fundi FEB

mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert