Röðin komin að okkur

Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við vonum að það komist skrið á viðræður strax eftir páskana fyrst búið er að semja við kennarana við Háskóla Íslands,“ segir Hjördís Sigursteinsdóttir, formaður félags háskólakennara við Háskólann á Akureyri. 

Félag háskólakennara við Háskólann á Akureyri hefur boðað til verkfalls frá 28. apríl til 12. maí. Hjördís telur eðlilegt að kennarar við HA hafi sömu kjör og kennarar við HÍ. „Ég ætla að vona það, því við erum að starfa hjá sama vinnuveitenda við sömu störfin. Þetta eru báðir ríkisreknir háskólar og það yrði mjög mikil synd ef starfsfólk HÍ yrði á öðrum kjörum en starfsfólk HA. Við erum metin samkvæmt sama kerfi og höfum alltaf verið með sömu launatöflu.“ 

Hjördís segir félagið hafa haft mikil samskipti við félag kennara við HÍ. „Við höfum uppi sambærilegar kröfur og HÍ og höfum verið í góðu samstarfi við þeirra félag. Ég geri nú bara ráð fyrir því að það verði talað við okkur á svipuðum nótum, hvernig svo sem það verði fjármagnað. Það er ekki fjármagn til innan HA, það hlýtur því að koma eitthvað fjármagn með. Ég hef ekki trú á að öðru en að eitthvað fjármagn hafi komið til HÍ.“

Páskafríið á óheppilegum tíma

Nú stendur yfir páskafrí en engir fundir hafa verið boðaðir með samninganefnd ríkisins enn. „Það er auðvitað óheppilegt að páskarnir séu einmitt svona seint þegar svona mál er uppi en þau (Félag háskólakennara við HÍ) sömdu ekki fyrr en seint á miðvikudeginum og samninganefndin kallaði okkur ekki á fund í dag þannig að við verðum bara að bíða fram á þriðjudag. Þá er það bara spurning hvort við fáum fjármagn frá ráðuneytinu eða ekki,“ segir Hjördís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert