Er fært að færa fríið?

mbl.is/Styrmir Kári

Lögboðið frí er þrjá fimmtudaga á þessu vori, sumardaginn fyrsta, 1. maí og uppstigningardag. Þá er 17. júní á þriðjudegi þetta árið. Þetta vekur enn upp umræðu um það hvort færa beri staka frídaga að helgum. Frumvarp þess efnis, sem lagt hefur verið fram, verður þó ekki afgreitt enda eru aðilar vinnumarkaðarins á því að það skuli gjört við samningaborðið en ekki á hinu háa Alþingi.

Vorið 2014 er vor hinna stöku frídaga. Sumardagurinn fyrsti, sem haldinn var hátíðlegur síðasta fimmtudag, setti svip á vinnuvikuna sem er að líða og var hún þó í styttra lagi fyrir vegna páskanna. Sama verður upp á teningnum í næstu viku en baráttudag verkalýðsins, 1. maí, ber upp á fimmtudegi. Þriðji staki frídagurinn verður svo fimmtudaginn 29. maí, uppstigningardagur. Þá fellur sjálfur þjóðhátíðardagurinn, 17. júní, á þriðjudag að þessu sinni.

Hugmyndir um að færa þessa stöku frídaga að helgum eru ekki nýjar af nálinni. Í kjarasamningum árið 1988 náðist samkomulag við nokkur stéttarfélög verkafólks um tilfærslu fimmtudagsfrídaganna (sumardagsins fyrsta og uppstigningardags) að helgi en tillagan hlaut ekki hljómgrunn þegar samningurinn var kynntur fyrir félögunum. Andstaða reis víða, meðal annars hjá kirkjunnar mönnum og skátahreyfingunni.

Frumvarp til laga

Þingsályktunartillögur hafa verið fluttar um málið og ýmis hagsmunasamtök, svo sem Rafiðnaðarsambandið og Samtök atvinnulífsins og forverar þess, lýst yfir stuðningi við sambærilega breytingu. Þá hefur vilji þjóðarinnar nokkrum sinnum verið kannaður.

Árið 2012 lagði Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku og lögum um almennan frídag, 1. maí. Í frumvarpinu er vikið að stökum frídögum og svohljóðandi breytingartillaga gerð:

„Veita skal frídaga vegna uppstigningardags og sumardagsins fyrsta næsta föstudag eftir þann dag sem þá ber upp á, nema um annan hátíðisdag sé að ræða og skal þá veita frí miðvikudaginn á undan. Beri jóladag, annan í jólum, nýársdag og 17. júní upp á helgi skal veita frídag næsta virkan dag á eftir. Þá skal halda 1. maí hátíðlegan sem frídag verkamanna fyrsta mánudag í maí, sbr. lög um almennan frídag vegna frídags verkamanna 1. maí.“

Í frumvarpinu segir ennfremur: „Stakir frídagar eru á margan hátt óheppilegir á vinnustöðum. Þeir skapa óhagræði og draga úr framleiðni. Á sama hátt nýtist stakur frídagur launþegum ekki nema að nokkru leyti, með vinnudag á undan og eftir. Það fyrirkomulag sem hér er lagt til ætti því að auka möguleika launþega á að nýta það frí sem þeir fá með lengri helgi, er fjölskylduvænna fyrirkomulag og er til hagræðis fyrir atvinnurekendur.“

Ekki rétti vettvangurinn

Seint á síðasta ári leitaði velferðarnefnd Alþingis umsagnar aðila vinnumarkaðarins. Samtök atvinnulífsins taka undir með flutningsmanni að þessir stöku frídagar skapi óhagræði og dragi úr framleiðni en lýsa yfir andstöðu við þá fjölgun frídaga sem lögð er til í frumvarpinu.

Í umsögn Starfsgreinasambands Íslands um frumvarpið kemur fram að vera megi að tími sé kominn til að taka málið upp aftur en það verði á hinn bóginn að gera við samningaborðið en tilfærsla á vinnudögum eigi heima þar en ekki á Alþingi. „Með því móti fær almennt launafólk tækifæri til að semja um það sérstaklega og í kjölfarið að segja álit sitt með atkvæðagreiðslu,“ segir í umsögninni. „Starfsgreinasambandið leggst því gegn því að Alþingi hlutist til um breytingar á frídögum á þessu stigi.“

Þetta sjónarmið féllst Alþingi á og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, staðfestir að frumvarpið verði að óbreyttu ekki afgreitt úr nefndinni.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert