Blöndulína 3 í bið

Deilt er um hvort raflínur eigi að fara í jörð …
Deilt er um hvort raflínur eigi að fara í jörð eða hvort leggja eigi loftlínur áfram. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Landeigendur í Skagafirði bíða eftir svari frá sveitarfélaginu varðandi lagningu Blöndulínu 3 um Skagafjörð en þeir eru ósáttir við að fá loftlínu í gegnum sveit sína. Landsnet segir að lagning línunnar sé í bið enda hafi sveitarfélög ekki sagt af eða á hvort þau heimila lagningu hennar. 

Landsnet undirbýr nú lagningu Blöndulínu 3, 220 kV háspennulínu milli Blöndustöðvar og Akureyrar.

Landeigendur í Skagafirði sem hafa mótmælt lagningu loftlínu um sveitarfélagið hafa ekki fengið nein viðbrögð frá Sveitarfélaginu Skagafirði við áskorun sem þeir sendu frá sér um páskana. Óska þeir eftir því að Sveitarfélagið Skagafjörður skoði nánar þann möguleika að línan verði lögð í jörð um Skagafjörð.

Sveitarfélög í Eyjafirði eru að skoða hvernig staðið verði að lagningu línunnar en Blöndulína er ekki komin inn á aðalskipulag í Hörgársveit né heldur á Akureyri. Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ er nú starfandi nefnd á vegum skipulagsráðs sem kannar hvaða möguleikar eru fyrir hendi, meðal annars hvort línan fari í jörð.

Helga Rós Indriðadóttir, sem býr á Hvíteyrum í Skagafirði, segir að töluverð umræða sé um að leggja línuna í jörðu um Skagafjörð líkt og í Eyjafirði.

 Tilgangur framkvæmdarinnar er að styrkja meginflutningskerfi raforku á Norðurlandi en jafnframt er hún fyrsti áfanginn í að auka flutningsgetu byggðalínuhringsins um landið, segir á vef Landsnets.

„Núverandi byggðalína mætir ekki lengur þeim kröfum sem gerðar eru til flutningskerfisins varðandi rafmagnsgæði og afhendingaröryggi. 
Umtalsverð aukning orkunotkunar er ekki möguleg nema með tilkomu Blöndulínu 3,“ segir þar ennfremur.

Neikvæð sjónræn áhrif

Blöndulína 3, frá Blöndustöð til Akureyrar, verður um 107 km löng. Línan mun liggja um fimm sveitarfélög; Húnavatnshrepp, Sveitarfélagið Skagafjörð, Akrahrepp, Hörgársveit og Akureyrarkaupstað.

Í áliti Skipulagsstofnunar frá því í janúar 2013 kemur fram að neikvæðustu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði sjónræns eðlis og áhrif á landslag og þar með einnig á útivist og ferðaþjónustu. Skipulagsstofnun telur að  heildaráhrif fyrirhugaðra framkvæmda m.t.t. þessara umhverfisþátta verði talsvert neikvæð.

Um er að ræða umfangsmikla framkvæmd sem felst í að reisa allt að 340 möstur, 23 m há möstur með rúmlega 300 m millibili, slétta um 120 m² svæði við hvert mastur og leggja eða lagfæra um 150 km af vegslóðum. Áhrifasvæði línanna mun ná yfir rúmlega 100 km leið frá Blöndu til Akureyrar og munu línurnar liggja um margbreytilegt landslag; um óbyggð svæði sem þéttbýlar sveitir og verða á löngum köflum sýnilegar frá fjölförnum þjóðvegi. Þá telur Skipulagsstofnun að Blöndulína 3 muni óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á landnotkun þar sem hún mun liggja um landbúnaðarhéruð og raska beint ræktuðu landi og beitarlandi auk þess að hafa í för með sér takmörkun á landnýtingu vegna byggingarbannssvæðis. Helstu neikvæðu áhrif sem búast má við á fugla er vegna áflugs þeirra á línur á sléttlendum og grösugum svæðum í Skagafirði og þar sem farleiðir þeirra liggja yfir stórar ár. Þá er ljóst að neikvæð áhrif verða á votlendissvæði sem njóta verndar, vegna röskunar við gerð mastrastæða og vegslóða.

Samkvæmt matsskýrslu er gert er ráð fyrir að Blöndulína 3 verði lögð sem 220 kV loftlína frá Blöndustöð yfir Blöndudal og Svartárdal um Vatnsskarð sunnan Valadals og meðfram norðurhlíð Valadalshnjúks að eyðibýlinu Kirkjuhóli í Skagafirði. Þaðan hafa tveir valkostir á legu línunnar um Skagafjörð verið skoðaðir. Annars vegar svokölluð Efribyggðarleið frá Kirkjuhóli og áleiðis inn að Mælifelli, þaðan yfir Tungusveit og Eggjar, yfir Héraðsvötn og að mynni Norðurárdals. Hins vegar svokölluð Héraðsvatnaleið í farvegi Héraðsvatna, á mörkum Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps, og að mynni Norðurárdals. Á fyrrnefndum kafla frá Blöndustöð mun línan ekki liggja í grennd við núverandi línur en á Héraðsvatnaleið verða línurnar þó í um eins km fjarlægð hvor frá annarri og í minni fjarlægð á nokkrum stöðum.

Hafna ekki línunni svo lengi sem hún fer í jörð

Helga Rós segir að landeigendur í Skagafirði bendi á að jarðstrengir séu nú metnir sem valkostur við raflínulagnir um Sprengisand.

Ef aðflutningsgjöld af jarðstrengjum verði sambærileg og á loftlínum er ekki lengur hægt að bera kostnaðarliðnum lengur fyrir sig líkt og iðulega hefur verið  gert. Það sem háir Landsneti varðandi lagningu 220kw jarðstrengja er það að sú þekking er ekki til né heldur þekking á viðgerðum  slíkra strengja, segir Helga Rós.

 Sveitarstjórn Hörgársveitar hefur nýtt heimild skipulagslaga til að fresta aðalskipulagi í allt að 4 ár að því er lýtur að Blöndulínu 3.  Það er ekki eins og við séum að hafna því að hún fari hér í gegn heldur viljum við að hún fari í jörð. Að minnsta kosti verði kannað til hlítar hvort sá kostur er fyrir hendi. Það sé metið á hverjum stað fyrir sig,“ segir Helga Rós.

Spurning hver hagnast

Hún segir það sorglegt sem sé að gerast á Suðurnesjum þar sem nú er rætt um að taka land eignarnámi svo hægt sé að leggja Suðvesturlínu sem loftlínu og flytja orkuna til stóriðju sem ekki enn liggur fyrir hvort verður að veruleika. 

„Maður spyr sig hver hagnast á þessu? Og er ekki rétt að kaupandi orkunnar, stóriðjan, beri kostnað af því að rafmagn sé flutt í sátt við náttúruna. Skagafjörður hefur  engan hag af lagningu Blöndulínu 3 , hvað þá að loftlína  fari hér í gegn með tilheyrandi sjónmengun. Okkar upplifun af okkar umhverfi verður skemmd. Svo maður tali ekki um ferðamennsku. Lagning jarðstrengs í gegn um héraðið  er ákveðið tækifæri til þess að halda einhverjum landsvæðum lausum við háspennumöstur og skapa þeim þannig sérstöðu,“ segir Helga Rós.

Stjórnvöld þurfa að taka af skarið

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir að lagning Blöndulínu 3 sé í bið en Landsnet er búið að ljúka mati á umhverfisáhrifum og línan búin að vera lengi á skipulagi. Hann á hins vegar ekki von á að mikið eigi eftir að gerast í lagningu línunnar fyrr en stjórnvöld taka af skarið varðandi hvort jarðstrengir eða loftlínur verði ofan á við lagningu raflína. 

Hann segir að Landsnet hafi óskað eftir fundi með sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem línan mun fara í gegnum en ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni. Síðasti fundur var haldinn fyrir tæpu ári síðan. Hann segir sveitarfélögin halda málinu hjá sér með því að gera ekki neitt.

Sprengisandslína hagkvæmari

Að sögn Þórðar er getan til þess að flytja raforku frá Suðurlandi til Norður- og Austurlands og til baka ekki til staðar í dag. „Með hverju ári aukast þessi vandamál og við höfum lagt upp með að athuga með að fara þá í Sprengisandslínu því það er náttúrulega einfaldasta framkvæmdin á þessu.“

Hann segir að lagning Sprengisandslínu myndi taka skemmri tíma en samt sem áður er þetta verkefni til margra ára. 

Aðspurður segir Þórður að allar línulagnir Landsnets muni mæta andstöðu og því sé ekkert öðruvísi farið með Sprengisandsleiðina. Hann segir að Landsnet fari ekki í neinar framkvæmdir á meðan sveitarstjórnir eru á móti lagningunni. Málið strandi í grunninn á jarðstrengjaumræðunni. 

Við höfum lagt uppi með að stjórnvöld marki stefnuna og það er í ákveðnu ferli núna,“ segir Þórður og vísar þar til þingsályktunartillögu sem lögð var fram fyrir einu og hálfu ári.

Atvinnumálanefnd skilaði áliti þann 1. apríl sl. þar sem kemur fram að ekki hafi náðst samkomulag um  eina tillögu eða stefnu um það hvenær jarðstrengur skuli valinn umfram loftlínu við flutning eða dreifingu á rafmagni. 

Aftur á móti náðist samkomulag um að jarðstrengir skuli metnir jafnir loftlínum ef kostnaðarmunur er lítill sem enginn. Í öðru lagi að ef kostnaður við að leggja jarðstreng er meiri en að leggja loftlínu þá skuli horft til flugöryggis, til þess hvort farið sé um skipulagða þétta íbúabyggð og þess hvort um þjóðgarð, friðland eða fólkvang er að ræða sem eru friðlýst samkvæmt lögum um náttúruvernd vegna sérstaks landslags. Þá telur nefndin að taka skuli mið af afhendingaröryggi og kostnaði við að tryggja það. 

Nefndin mælist til þess að við undirbúning frumvarps til laga, sbr. framangreint, verði hugað að því að mæla fyrir um ákveðinn hámarkskostnaðarmun sem geti verið um að ræða á milli annars vegar jarðstrengs og hins vegar loftlínu. Einnig er mikilvægt að draga úr sjónmengun loftlína með því að þróa nýjar tegundir flutningsmannvirkja sem falla betur að umhverfinu og velja þeim stað þannig að umhverfisáhrif séu sem minnst.

Nefndin bendir á að aðstæður geti verið mjög mismunandi og því þurfi að meta hvert verkefni fyrir sig. Nefndin tekur undir sjónarmið um að tryggt skuli að samráð verði haft við landeigendur þegar flutningsvirki er undirbúið og vonast til þess að sátt náist um framtíðaruppbyggingu raforkukerfisins.

Mælifellshnjúkur er eitt af helstu kennileitum Skagafjarðarhéraðs, 1138 metra hár. …
Mælifellshnjúkur er eitt af helstu kennileitum Skagafjarðarhéraðs, 1138 metra hár. Háspennulína um Efribyggðarleið myndi þvera héraðið framan við fjallið. Myndin er tekin af veginum um Efribyggð. Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason
Landnet - Sprengisandur
Landnet - Sprengisandur mbl.is
Sprengisandur
Sprengisandur mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert