Halda fundum áfram

Birgir Ármannsson, formaður Utanríkismálanefndar Alþingis
Birgir Ármannsson, formaður Utanríkismálanefndar Alþingis Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það er ekki raunhæft að áætla að við munum ljúka umfjölluninni um þetta mál,  bæði í nefnd og í  þingsal fyrir 16.maí,“ segir Birgir Ármannson, þingmaður og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, en nefndin fundaði í morgun um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

„Það eru ennþá ákveðnir óvissuþættir í þessu og nú er spurning hvort það verði sumarþing eða hvort að menn nái einhverri niðurstöðu hvað þetta mál varðar sem getur verið þáttur í samkomulagi um þinglok.“

Samkvæmt Birgi hefur nefndin undanfarna daga verið að funda með þeim aðilum sem hafa sent nefndinni umsagnir um aðild Íslands að Evrópusambandinu. 

„Undanfarna daga höfum við verið að funda með þessum aðilum og halda þessir fundir áfram á næstu dögum. Í morgun funduðum við með Neytendasamtökunum og Bandalagi Háskólamanna. Fyrr í vikunni áttum við fundi með ASÍ, SA, Félagi atvinnurekenda og Viðskiptaráði. Heldur þetta síðan áfram á morgun en þá fundum við með LÍÚ. Við erum að fara efnislega yfir umsagnir þeirra samtaka sem senda okkur tilskrif um þetta mál og þeirri umfjöllun munum við halda áfram um sinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert