Eiginkona Íslendings verður send úr landi

Þau Izekor Osazee og Gísli Jóhann Grétarsson gengu í hjónaband …
Þau Izekor Osazee og Gísli Jóhann Grétarsson gengu í hjónaband í Seljakirkju þann 12. apríl.

„Þetta er konan mín, þetta er ástin í lífi mínu. Ég mun fara á eftir henni þangað til ég veit að hún er í öruggum höndum,“ segir Gísli Jóhann Grétarsson, en eiginkona hans, Izekor Osazee, var handtekin í morgun og bíður hennar að vera send úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Dv.is greindi fyrst frá málinu í dag. Izekor er frá Nígeríu en tvö ár eru síðan hún kom til Íslands og sótti hér um hæli en var neitað. Hún kynntist Gísla og gengu þau í hjónaband þann 12. apríl sl., eftir að Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytið höfðu ákveðið að senda hana aftur til Finnlands, þar sem hælisumsókn hennar fékk fyrst efnislega meðferð.

Hún hefur nú sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjónabands. Í millitíðinni hafa þau hjónin að sögn Gísla lagt leið sína á lögreglustöðina á hverjum degi síðustu daga til að sinna tilkynningaskyldu. 

„Við fórum á föstudag, laugardag og sunnudag og þurftum nánast að beita lögreglu þrýstingi um helgina til að fá það skráð að við hefðum komið. Síðan í dag þegar við komum þá báðu þeir okkur um að koma aðeins inn fyrir því það þyrfti að ræða við okkur um brottvísunina. Og við sitjum þarna róleg niður í sófa þegar það koma fjórir lögregluþjónar til að handtaka hana,“ segir Gísli.

Send úr landi á morgun

Að sögn Helgu Völu Helgadóttur, lögmanns þeirra hjóna, virðist ástæða handtökunnar helst vera sú að þau hafi ekki fylgt fyrirmælum nógu nákvæmlega því þau mættu snemma dags en ekki kl. 14 eins og þeim var uppálagt.

„Hún hefur mætt og tilkynnt sig á hverjum degi, svo mætir hún á undan áætlun í dag og þá finnst þeim eins og það megi handtaka fólk. Á meðan alls konar glæpamenn ganga lausir,“ segir Helga Vala.

Hún hefur lagt fram kröfu um að Izekor verði tafarlaust sleppt úr haldi og bíður nú svara frá ríkislögreglustjóra. Þau hafa fengið þær upplýsingar að Izeko verði send úr landi í fyrramálið.

Aðspurður segir Gísli að eiginkonu hans bíði ekkert í Finnlandi, en á Íslandi eigi hún líf. „Hún á enga ættingja eða vini í Finnlandi. Þar er enginn sem hún þekkir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert