Fimm af sextán hæðum risnar

Það er ótrúlegur gangur í framkvæmdum á Höfðatorgi en hótelbyggingin þar rýkur upp. Fimm hæðir eru komnar af sextán og er byrjað að innrétta herbergi á þeim hæðum sem risnar eru.

Hall­grím­ur Magnús­son, bygg­ing­ar­stjóri Höfðatorgs, seg­ir að byggingin gangi vel og áætlanir um að hótelið verði til­búið 1. júní 2015 standist ef ekkert óvænt kemur upp á.

Stefnt er að því að hót­elið taki til starfa sum­arið 2015 og er bygg­ing­ar­tím­inn rúm­ir átján mánuðir. Það er bygg­ing­ar­fyr­ir­tækið Eykt sem bygg­ir hót­elið líkt og aðrar bygg­ing­ar við Höfðatorg und­an­far­in ár.

Mikil eftirspurn eftir íbúðum 

Eykt áform­ar að hefja fram­kvæmd­ir við 12 hæða íbúðat­urn við Höfðatorg í nóvember en teikningum verður skilað til skipulagsráðs fyrir sumarleyfi. Á bil­inu 70 til 75 íbúðir verða í turn­in­um og er áætlað að fram­kvæmd­um ljúki síðla árs 2016. Áætlaður kostnaður við íbúðat­urn­inn og hót­elið er 12 millj­arðar króna. Íbúðirnar verða frá 50 fm að stærð og upp úr enda mikil eftirspurn eftir íbúðum miðsvæðis í Reykjavík.

Á milli 130-140 manns vinna við hótelbygginguna núna en þeim fjölgar jafnt og þétt og er gert ráð fyrir að starfsmennirnir verði um 230-250 talsins frá október og til byggingarloka, að sögn Hallgríms.

Tvær hæðir á mánuði

„Við erum að steypa fimmtu hæðina núna og gefum okkur rúman hálfan mánuð í hverja hæð þangað til sextán hæðum verður náð í nóvember,“ segir Hallgrímur.

Hann segir að um leið og búið er að steypa hæð upp hefjast framkvæmdir innanhúss. „Það er verið að byrja að innrétta fyrstu herbergi hótelsins en það er allt á fullu við að sparsla og mála herbergi og byrjað verður að flísaleggja í næstu viku,“ segir Hallgrímur.

Mikið hefur breyst síðan mbl.is byrjaði að fylgjast með byggingu hótelsins í nóvember í fyrra. Þá blasti við hola í jörðinni en nú eru risnar fimm hæðir. Utanhúss hefur aðgengi batnað til muna og Þórunnartún orðið almennilega fært fyrir akandi umferð að nýju. Aðalinngangur hótelsins verður við Þórunnartún en frágangur á lóð hefst ekki fyrir alvöru fyrr en undir lok framkvæmda.

Á sama tíma er verið að reisa átta til níu þúsund fermetra bílakjallara á reitnum en hann verður undir tólf hæða íbúðaturninum sem er næsta verkefni á Höfðatúnsreitnum. Í bílakjallaranum verða tæp­lega 300 bíla­stæði sem munu bæt­ast við þau stæði sem þegar eru á svæðinu. Á neðstu tveimur hæðunum þar verða verslanir og þjónusta en mikil eftirspurn er eftir góðum íbúðum á þessum slóðum, segir Hallgrímur.

„Þetta er mjög knappur tími sem við höfum fyrir byggingu hótelsins en við ætlum okkur að standa við áætluð verklok og í dag er ekkert sem bendir til annars en það takist,“ segir Hallgrímur.

Aðspurður um hvort unnið sé allan sólarhringinn á byggingarsvæðinu segir Hallgrímur að svo sé ekki. „Hér er unnið frá klukkan hálf átta á morgnana til sjö á kvöldin og um helgar eftir þörfum. Við munum ekki fara í vaktavinnu í steypuvinnunni en það getur vel verið að þess þurfi við vinnu innanhúss.“

Vel hefur gengið að manna framkvæmdirnar, bæði með starfsmönnum Eyktar sem og með undirverktökum. En á svipuðum tíma og steypuframkvæmdum ljúki á hótelinu hefjist steypuframkvæmdir við íbúðabygginguna þannig að mannskapurinn nýtist sem best. Eins er varla hægt að vera með slíkar stórframkvæmdir í gangi á báðum stöðum á sama tíma vegna áhrifa þess á umhverfið í kring um Höfðatorg, segir Hallgrímur.

Mbl.is mun heim­sækja Hall­grím næst eft­ir þrjá mánuði eða um miðjan ágúst en líkt og fram hef­ur komið mun mbl.is fylgj­ast með fram­kvæmd­um við bygg­ingu hót­els­ins í máli og mynd­um allt þar til hót­elið tek­ur við fyrstu gest­un­um sum­arið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert