Ný ESB-tillaga kemur til greina

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir forystumenn ríkisstjórnarinnar munu velta framhaldi ESB-málanna fyrir sér í sumar og þá hvort jafnvel beri að leggja fram aðra þingsályktunartillögu um framhald málsins. Gunnar Bragi lagði í febrúar fram tillögu um að draga ESB-umsóknina til baka.

Nú er ljóst að tillagan verður ekki tekin fyrir á Alþingi fyrr en í fyrsta lagi í haust, enda verður ekki efnt til sumarþings að þessu sinni.

Má lesa um feril málsins á Alþingi hér.

Af því tilefni ræddi mbl.is við utanríkisráðherra um stöðu þessa mikla deilumáls.

Hefði viljað ljúka málinu

- Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið sl. laugardag að óvíst væri hvort þingsályktunartillagan sem þú lagðir fram í febrúar yrði tekin fyrir í haust. Ertu sáttur við þau málalok sem tillagan virðist vera að fá?

„Ég er ósáttur við að ekki skyldi takast að ljúka málinu með einhverjum hætti á þinginu. Við höfum 38 þingmenn í meirihluta á þinginu og hefðum því átt að geta farið að vilja ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Báðir höfðu samþykkt þessa tillögu. Það var hins vegar alveg ljóst að tillagan olli titringi sem menn vildu finna lausn á. Það náðist ekki að klára það.“

Aðeins spurning um formsatriði

- Sigmundur Davíð segir óvíst hvort þörf sé á að afgreiða tillöguna. Tekurðu undir þetta?

„Er það ekki í raun aðeins formsatriði, að tilkynna Evrópusambandinu með einhverjum hætti að þessum viðræðum sé lokið?“ spyr Gunnar Bragi. „Við erum ekki í neinum viðræðum við Evrópusambandið. Við höfum slitið öllum samningahópum, nefndum og öðru slíku sem voru að vinna að umsókninni. Það eina sem stendur eftir er að Evrópusambandið er með okkur flokkað sem umsóknarríki. Þannig met ég stöðuna nú og þannig höfum við forsætisráðherra velt því fyrir okkur hvort þörf sé á sé að klára þetta með þeim hætti sem við ætluðum okkur. Það er sjálfsagt hreinlegra en það er spurning hvort það sé þörf á því.“

- Þú nefnir að ákveða þurfi með hvaða hætti ESB verður tilkynnt formlega hvernig viðræðunum verði hætt. Hvaða hugmyndir hafið þið Sigmundur Davíð skoðað í því efni?

„Það hefur ekkert verið skoðað í því efni annað en þessi tillaga. Menn munu velta fyrir sér málinu í sumar, hvort við komum með aðra tillögu í haust, hvort hún verði eins eða hvort hún verður öðruvísi.“

Tillaga um þjóðaratkvæði kemur til greina

- Kemur til greina að ef þið leggið fram aðra tillögu að þá verði lögð sérstök áhersla á þjóðaratkvæðið? Sigmundur Davíð lagði sérstaka áherslu á það í samtali við Morgunblaðið.

„Það kemur alveg til greina að leggja fram einhvers konar tillögu með þjóðaratkvæði. En hvernig það yrði útfært og hvað það þýddi og annað, eiga menn eftir að meta. En það kemur ekki til greina að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um að fela ríkisstjórninni að halda áfram þessum viðræðum, svo það sé alveg skýrt. Það er ekki í myndinni.

Ef það yrði niðurstaðan að halda þjóðaratkvæði að þá yrði hægt að greiða atkvæði um tvennt að mínu viti. Annars vegar hvort þjóðin vill ganga í Evrópusambandið eða ekki. Þar væri hægt að svara þeirri spurningu. Hins vegar væri hægt að spyrja þjóðina hvort hún sé sammála því að ekki yrði farið af stað á ný án þess að hún yrði spurð. Einhvers konar tvöföld atkvæðagreiðsla.“

Einhugur hjá Framsóknarflokknum“

- Yrði þessu ýtt úr vör í haust, þannig að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla í haust?

„Nei. Ég er aðeins að velta því upp sem mögulega getur orðið. Ekki endilega á kjörtímabilinu, heldur hvað menn gætu gert. Ég lít ekki svo á að ríkisstjórnin hafi lofað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, nema ef menn tækju ákvörðun um að halda áfram viðræðunum.

Það hefur ríkt einhugur í Framsóknarflokknum um hvernig ætti að afgreiða þetta mál. Það hefur hins vegar verið meira um vangaveltur í samstarfsflokknum, eins og við höfum heyrt á orðum Vilhjálms Bjarnasonar og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Það þarf að finna betur út úr því hvar þessir flokkar geta verið samstiga, ef það á að klára málið með einhverjum hætti.“

Að mínu viti er málið dautt“

- Nú er þetta mikið hitamál fyrir tiltekinn hóp kjósenda, einkum þá sem eru eindregnastir í andstöðu við ESB-aðild. Þeir telja sig margir svikna með því að það sé ekki samþykkt að draga umsóknina til baka. Hvernig myndirðu ávarpa þennan hóp?

„Ég myndi ávarpa þennan hóp þannig að vissulega hefði verið betra að klára þetta. Það er ekki útilokað að hægt sé að klára þetta með þeim hætti sem menn hafa lagt upp með. En það er hins vegar alveg ljóst að það verður erfiðara. Að mínu viti er málið dautt. Við erum í engum samskiptum við Evrópusambandið út af þessari tillögu. Þannig að þetta er spurning hversu mikil þörfin er og hversu langt menn vilja ganga til að klára þessi formlegheit, sem ég vil kalla svo,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert