Sátt um átta prósenta launahækkun

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, og Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður …
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, og Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Félags sjúkraliða, fá sér vöfflur eftir langa samningalotu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er mjög sátt með niðurstöðuna. Við náðum í raun öllum okkar markmiðum,“ segir Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Félags sjúkraliða en skrifað var undir nýjan kjarasamning í í húsnæði ríkissáttasemjara í hádeginu eftir rúmlega 26 klukkustunda fundarhöld.

Kjarasamningurinn nær til félagsmanna í Sjúkra­liðafé­lagi Íslands og SFR sem vinna hjá SFV, Sam­tök­um fyr­ir­tækja í vel­ferðarþón­ustu. Um þriggja klukkustunda löngu verkfalli sjúkraliða hjá 26 hjúkrunarheimilum hefur því verið frestað en Kristín gerir ráð fyrir að starfsemin verði komin aftur í eðlilegt horf síðdegis í dag.

Um átta prósenta launahækkun

Samningurinn felur í sér um 8% launahækkun og umtalsverðar bætur í réttindamálum sjúkraliða. Launahækkunin felst annars vegar í 2,8% hækkun í samræmi við almennar launahækkanir og 4,8% hækkun í samræmi við jafnlaunaátak ríkisstjórnarinnar á heilbrigðisstofnunum.

Helstu breytingarnar varðandi réttindamálin felast í samræmdum reglum um ráðningar, áminningar og uppsagnir starfsmanna. „Slíkan kafla hefur hreint og klárt vantað. Við höfum verið með undirritað samkomulag um uppsagnir við sumar stofnanir en eftir að við töpuðum máli gegn Hrafnistu fyrir Hæstarétti vegna uppsagnar á starfsmanni þar sem niðurstaðan var sú að þessi samkomulög væru einskis virði hefur verið ljóst að við þyrftum að fá þetta inn í samninginn,“ segir Kristín.

Þrengri heimildir til uppsagna

Réttindakaflinn er sniðinn eftir lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna hvað varðar nauðsyn áminningar áður en til uppsagnar kemur og andmælaréttar starfsmanna. „Við höfum fengið mikla mótspyrnu við réttindakaflanum frá forráðamönnum stofnana,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.  Hann segir þá ekki hafa verið sátta við þrengri heimildir til uppsagna. „Á almennum vinnumarkaði er hægt að segja fólki umsvifalaust upp en nú er gert ráð fyrir að það þurfi áminningu og starfsmanni skal vera gefið færi á að tala sínu máli. Ástæður þurfa að vera málefnalegar og starfsmenn munu eiga möguleika á að bæta sig áður en þeim er sagt upp,“ segir Árni.

Hann segir réttindamálin hafa verið orðin til mikilla vandræða og á reiki og segist því mjög sáttur með að réttindakaflinn hafi náð saman með þessum hætti.

Laun vegna verkfallsdaga ekki dregin frá

Kristján Sigurðsson, formaður samninganefndar Samtaka fyrirtækja í velferðaþjónustu, segist einnig vera sáttur með niðurstöðuna og þá sérstaklega réttindamálin sem hingað til hafi verið illa samræmd. „Óljóst var hvernig réttindi starfsmanna lágu fyrir. Nú erum við með okkar eigin réttindapakka inni í kjarasamningnum og hefur uppsagnar- og áminningarferlið þar mest vægi,“ segir hann.

Ekki náðist að knýja fram afturvirka leiðréttingu á launum til eins árs líkt og sjúkraliðar fóru fram á, en þó var samið um bætur í því formi að laun vegna verkfallsdaga verða ekki dregin frá heildarlaunum. 

Skrifað var undir kjarasamning í morgun eftir um 26 klukkustunda …
Skrifað var undir kjarasamning í morgun eftir um 26 klukkustunda langan lokafund. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Kristján Sigurðsson, formaður SFV, og Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Félags …
Kristján Sigurðsson, formaður SFV, og Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Félags sjúkraliða, takast í hendur eftir undirritun kjarasamningsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert