Vill sérstakt ferðamálaráðuneyti

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Helga Árnadóttir, telur rétt að setja á laggirnar sérstakt ferðamálaráðuneyti í ljósi þess hversu stór atvinnugreinin er orðið. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Viðskiptablaðinu. Hún gagnrýnir að málaflokkurinn sé í dag úti um allt stjórnkerfið og heyri ekki undir eitt ráðuneyti.

Þannig bendir hún á að sérstakt ráðuneyti sé fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. „Með ráðuneyti ferðamála væri tryggt  að haldið væri utan um alla þekkingu, rannsóknir og stefnumótun á einum stað með það að markmiði að fylgja eftir og móta heildstæða stefnu í ferðamálum sem og að tryggja hagsmuni greinarinnar. Í dag er þessi málaflokkur úti um allt á mismunandi skrifstofum í stjórnkerfinu og fyrir vikið er ekki gengið í takt.“

Þá segir hún að oft gleymist að taka hagsmuni ferðaþjónustunnar inn í myndina til að mynda þegar áform eru uppi um að raska náttúrunni eins og með lagningu raflína um hálendið. „Ferðaþjónustan er undirstöðuatvinnugrein en það gleymist of á tíðum að taka inn sjónarmið hennar í heildarmyndina þegar verið er að vega og meta svona kosti og taka ákvarðanir, þar sem hagsmunir greinarinnar eru gífurlegir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert