Hafði alvarlegar hótanir uppi

mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að erlendur ríkisborgari sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli, sem höfðað var gegn honum fyrir að ráðast á georgískan ríkisborgara í verslunarmiðstöðinni Kringlunni í nóvember sl. og stinga hann tvívegis með hnífi.

Árásarmálið gegn manninum verður tekið fyrir í héraðsdómi nú í júní. En maðurinn var handtekinn á ný nú í apríl og úrskurðaður í gæsluvarðhald eftir að hann hótaði því að brenna hælisleitendur inni og einnig tvo nafngreinda starfsmenn stofnunarinnar.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að maðurinn hafi sagt lögreglu rangt til um nafn og fæðingardag. Hann eigi sögu um ofbeldi hér á landi og Útlendingastofnun hafi þegar tekið ákvörðun um að vísa honum úr landi.

Dró hælisumsókn til baka

Maðurinn sótti um hæli hér á landi en hefur nú dregið þá umsókn til baka. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að maðurinn sendi Útlendingastofnun tölvupóst með hótunum og kom síðan á skrifstofu stofnunarinnar og hótaði því að fengi hann ekki úrlausn sinna mála samdægurs myndi hann daginn eftir læsa alla dvalargesti á gistiheimili fyrir hælisleitendur inni og kveikja í húsinu.

Maðurinn viðurkenndi í yfirheyrslum hjá lögreglu, að hafa haft hótanirnar uppi. Þegar lögregla spurði hann hvort hann ætlaði sér að fylgja hótunum sínum eftir svaraði hann, að ef mál hans hjá Útlendingastofnun fengi ekki framgang væri möguleiki á því. Hann hefði vísað til þess að hann drykki oft áfengi og undir áhrifum gæti hann gert eitthvað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert